Gengu með dýragrímur á Dýradaginn

Þátttakendur sköðuðu grímur og búninga úr endurnýttum efnivið.
Þátttakendur sköðuðu grímur og búninga úr endurnýttum efnivið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta gekk vonum framar. Við stefnum að því að þetta verði árlegur viðburður og Jane Goodall hefur sýnt því áhuga að mæta á næsta ári,“ segir Katrín Magnúsdóttir, verkefnastjóri Skóla á grænni grein hjá Landvernd. 

Landvernd stóð fyrir Dýradeginum sem haldinn var hátíðlegur í fyrsta skipti á Íslandi í dag, á degi líffræðilegs fjölbreytileika.

Að sögn Katrínar er dagurinn innblásinn af Jane Goodall, breskum dýrafræðingini, fremdardýrafræðingi, mannfræðingi og sérstökum sendiherra Sameinuðu þjóðanna fyrir friði.

„Við erum búin að vera í samstarfi við bæði skóla og leikskóla, Laugarnesskóla, Háaleitisskóla og leikskólann Hof, þar sem börnin hafa fengið fræðslu um dýr og líffræðilegan fjölbreytileika. Þessir hópar söfnuðust saman á lóð Laugarnesskóla og gengu fylktu liði með lúðrasveit í broddi fylkingar í Grasagarðinn þar sem var stutt dagskrá, þar sem þeir Sævar Helgi Bragason og Atli Svavarsson voru með hugvekju,“ útskýrir Katrín.

Katrín segir að öllum hafi verið boðið og frjálst að mæta og að einhverjir utan þessara skóla hafi tekið þátt í göngunni. Til stendur að gangan verði enn stærri að ári.

„Við erum ekki byrjuð að skipuleggja svo langt en það er okkar von að við náum til fleiri skóla og fleiri aldurshópa, núna var þetta leikskóli og 1. til 4. bekkur en okkur langar að færa þetta ofar og virkja fleiri með.“

Dýradagurinn er byggður á hugmynd frá Roots & Shoots samtökum …
Dýradagurinn er byggður á hugmynd frá Roots & Shoots samtökum Jane Goodall í Taiwan og Argentínu sem kallast „Animal Parade“. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert