Hæstiréttur hafnar beiðni Steinars Berg

Steinar Berg Ísleifsson.
Steinar Berg Ísleifsson. mbl.is/Árni Sæberg

Hæstiréttur hefur hafnað beiðni Steinars Berg Ísleifssonar eftir leyfi dómstólsins til að áfrýja dómi Landsréttar sem í apríl sýknaði Ríkisútvarpið af kröf­um Stein­ars. Hann krafði RÚV um miska­bæt­ur og af­sök­un­ar­beiðni vegna end­ur­varps á um­mæl­um tón­list­ar­manns­ins Bubba Mort­hens í þætt­in­um Popp- og rokk­saga Íslands.

Fram kom í dómi Lands­rétt­ar að RÚV uni því þó að því sé óheim­ilt að sýna þátt­inn þar sem Bubbi lét um­mæl­in í garð Stein­ars Berg falla. Rík­is­út­varpið þarf þó ekki að greiða Stein­ari miska­bæt­ur né birta dómsorð á vef sín­um, ruv.is, eins og farið hafði verið fram á.

Steinar byggði beiðni sína m.a. á því að úrslit málsins hefðu verulegt almennt gildi um mörk laga um fjölmiðla og skaðabótalaga þegar um væri að ræða fjölmiðil sem starfar samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið. Hann hélt því enn fremur fram að dómur Landsréttar væri bersýnilega rangur að efni til þar sem hann gengi gegn fyrirmælum laga um Ríkisútvarpið og dómafordæmum Hæstaréttar um beitingu 26. gr. skaðabótalaga.

Hæstiréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ekki yrði séð að dómur Landsréttar væri bersýnilega rangur að efni til. Þá væri ekki unnt að líta svo á að málið varðaði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi laga um meðferð einkamála eða að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi. Var beiðninni því hafnað.

mbl.is