Hótaði ofbeldi fengi hann ekki sælgæti

Maður í mjög annarlegu ástandi var staðinn að þjófnaði úr verslun í  austurhluta Reykjavíkur (hverfi 108) um klukkan 19 í gær.  Maðurinn hafði stolið sælgæti sem starfsfólk tók af honum. Eitthvað átti maðurinn erfitt með að sætta sig við þessi málalok og kom aftur inn í verslunina og hótaði starfsfólki barsmíðum ef hann fengi ekki sælgætispokann aftur.  Maðurinn fékk pokann afhentan og fór á brott. Skömmu síðar var maðurinn handtekinn og neitaði hann þá að gefa upp persónuupplýsingar. Maðurinn er vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

Síðdegis í gær voru höfð afskipti af ölvuðum manni í vínbúð í Hafnarfirðinum en hann var búinn að opna vínpela og var að drekka úr honum í versluninni. Maðurinn hafði komið fyrr um daginn í verslunina og stolið sex bjórum sem hann hafði sett í bakpoka sinn og gengið út.  Málið afgreitt á vettvangi, samkvæmt dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Maður var stöðvaður er hann var að stela brúnkuklútum úr verslun í Kópavogi (hverfi 201) um klukkan 18 í gær. Maðurinn var í annarlegu ástandi og var málið afgreitt á vettvangi. Maðurinn var með bíllykla í vasa sínum sem voru haldlagðir sökum ástands mannsins. 

Á tíunda tímanum í gærkvöldi stöðvaði lögreglan bifreið í austurhluta Reykjavíkur (hverfi 105). Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og er grunur um að ökuskírteini hans sé falsað. Þrír menn voru í bifreiðinni, eru þeir grunaðir um þjófnað úr verslunum. Mennirnir voru meðal annars með 25 pakkningar af dýru kjöti, 14 osta og ýmsan varning sem þeir gátu ekki gert grein fyrir.  Mennirnir voru handteknir og vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Einn ökumaður var stöðvaður í Árbænum fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna síðdegis í gær og í nótt var tilkynnt um eignaspjöll/rúðubrot í bifreið í austurhluta Reykjavíkur (hverfi 105).  Engu var stolið úr bifreiðinni og ekki er vitað um geranda.

mbl.is