Málsmeðferð harðlega gagnrýnd

Georg Holm og Orri Páll Dýra­son, fyrr­ver­andi trommu­leik­ari Sig­ur Rós­ar, …
Georg Holm og Orri Páll Dýra­son, fyrr­ver­andi trommu­leik­ari Sig­ur Rós­ar, í Héraðsdómi Reykjavíkur í byrjun apríl. mbl.is/Eggert

Liðsmenn Sigur Rósar greiddu 76,5 milljónir króna vegna álagsbeitingar ríkisskattstjóra eftir að breytingar voru gerðar á opinberum gjöldum þeirra undir lok síðasta árs.

Þetta kemur fram í greinagerðum Bjarnfreðs Ólafssonar, verjanda Sigur Rósar. Fyrst var greint frá málinu á vef RÚV

Bjarnfreður líkir fyrirkomulaginu í máli Sigur Rósar við tilraunastarfsemi og segir ákæruvaldið og skattayfirvöld leita leiða til að koma sér undan skýrum ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu.

Núverandi og fyrrverandi liðsmenn hljómsveitarinnar hafa verið ákærðir fyrir skattsvik en meint svik nema 150 milljónum. Auk þess er Jón Þor Birgisson, söngvari ákærður ásamt endurskoðanda sínum fyrir skattsvik sem nema samkvæmt ákæru 146 milljónum.

Verjandi liðsmanna Sigur Rósar telur að brot þeirra hafi hlotið margfalda málsmeðferð og að þeir séu ákærðir fyrir sömu brot og þeir hafi þegar sætt refsingu fyrir í formi álagsbreytingar.

Ekki sé boðlegt fyrir skattayfirvöld og ákæruvaldið að halda áfram og bent er á að íslenska ríkið hafi þrisvar sinnum á síðustu tveimur árum verið dæmt brotlegt af Mannréttindadómstóli Evrópu. 

Einnig er bent á að heildarmálsmeðferðartími sé langur en rannsókn hófst í janúar árið 2016. Allan þann tíma hafi liðsmenn sveitarinnar verið samstarfsfúsir og reynt að aðstoða við rannsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert