Ráðherra fundar með UNICEF í hádeginu

„Þetta eru ofboðslega sorglegar tölur, en undanfarið höfum við verið …
„Þetta eru ofboðslega sorglegar tölur, en undanfarið höfum við verið að fara yfir hvernig er hægt að halda betur utan um þennan málaflokk,“ segir Ásmundur Einar. mbl.is/Sigurður Bogi

Félags- og barnamálaráðherra hyggst bregðast hratt og örugglega við niðurstöðum skýrslu sem segir til um að fimmta hvert barn á Íslandi hafi orðið fyrir ofbeldi. Hann fundar með UNICEF, sem lét vinna skýrsluna, í hádeginu.

„Þetta eru ofboðslega sorglegar tölur, en undanfarið höfum við verið að fara yfir hvernig er hægt að halda betur utan um þennan málaflokk, ofbeldi gegn börnum,“ segir Ásmundur Einar Daðason í samtali við mbl.is. „Fyrstu viðbrögð mín við skýrslunni eru þau að ég er búinn að boða fund með UNICEF í hádeginu.“

„Við förum yfir þessa skýrslu og munum í framhaldinu bregðast við,“ segir Ásmundur Einar og bætir því við að frétta úr ráðuneytinu vegna málsins sé að vænta mjög fljótlega.

„Í íslensku samfélagi hefur það verið þannig að á góðviðrisdögum sem þessum tölum við um að við viljum setja börn í fyrsta sæti, en við höfum ekki nægilega sýnt það í verki. Eitt er að bregðast við með aðgerðum gagnvart þessari sorglegu tölfræðilegu staðreynd og hitt er að spyrja sig af hverju stjórnvöld eru ekki að fá upplýsingar um tölfræðina, af hverju tölfræðin er ekki vöktuð og með hvaða hætti er hægt að gera það,“ segir Ásmundur Einar.

„Við erum þegar komin vel af stað í þeirri vegferð og það er hluti af þessari stóru vinnu sem við erum með í gangi hérna. Þegar kemur að málefnum barna viljum við að samfélagið vakti ákveðna þætti. Ég get ekki svarað því af hverju það hefur ekki verið gert, en við erum að undirbúa aðgerðir til þess að geta gert það.“

Aðspurður hvort stjórnvöld muni taka áskorun UNICEF um ofbeldisvarnaráð segir Ásmundur Einar það meðal málefna sem rædd verði á fundinum. „Eins og ég segi funda ég með UNICEF í hádeginu og í framhaldinu munum við hreyfa okkur hratt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina