„Órafmagnað stuð“

Poppkórinn Vocal Project heldur tónleika í Guðríðarkirkju annað kvöld.
Poppkórinn Vocal Project heldur tónleika í Guðríðarkirkju annað kvöld. Ljósmynd/Ólafur Már Svavarsson

Poppkórinn Vocal Project heldur vortónleika sína í Guðríðarkirkju á morgun, 23. maí, kl. 20 og segir á miðasöluvefnum tix.is að lögin sem flutt verða séu í fjölbreyttum, skemmtilegum og krefjandi útsetningum. Gunnar Ben, stjórnandi kórsins, segir kórinn njóta fulltingis þriggja hljóðfæraleikara sem verði þó allir „unplugged“, þ.e. leiki ekki á rafmagnshljóðfæri. „Það er stuð í kirkjunni. Þetta er órafmagnað stuð,“ segir Gunnar kíminn.

Blaðamaður ræddi líka við Gunnar í fyrra um vortónleikana þá sem voru með ákveðnu þema, „Goðsagnir“, en á tónleikunum nú verður önnur áhersla. „Þemað er í rauninni núna það sem okkur langar að syngja. Ég ætla ekki alveg að kalla þetta óskalög kórfélaga en nú ákváðum við bara að syngja svolítið hressilegt prógramm og hress popplög eru í miklum meirihluta,“ segir Gunnar. 

Sem dæmi nefnir hann að kórinn muni syngja lög úr kvikmyndum, m.a. The Greatest Showman og teiknimyndinni Sing!, A Star is Born og lög með Pink og Hosier.

Ekki þrúgað af hátíðleik

–En er eitt af markmiðum kórsins að tónleikarnir séu fjölskylduvænir? Nú er eitt lag úr teiknimynd á efnisskránni.

„Ég held að við séum alltaf með eitt teiknimyndalag, ég held að það sé samt óvart en langoftast laumast það með,“ svarar Gunnar. „Aðallega er þetta fjölskylduvænt af því það er svo mikið stuð og þetta er ekki þrúgað af hátíðleik. Við skemmtum okkur á tónleikum og þá á yngri kynslóðin auðvelt með að hrífast með því og auðvitað bara allir.“

Tvennir tónleikar

–Leggurðu mikið á fólkið í kórnum?

„Alltaf,“ svarar Gunnar og hlær við. „Aðalpressan núna á vorönninni hefur samt verið að við erum að undirbúa í raun tvenna tónleika í einu. Við erum með tónleika í september sem við höfum verið að vinna í meðfram þessum og erum að fara strax núna eftir tónleika út á land í upptökubúðir að taka upp þrjú lög.“

Gunnar er spurður að því hvaða lag eða lög hafi verið hvað erfiðust fyrir kórinn að æfa. Hann hugsar sig vel um og nefnir svo „brjálæðislega flókna“ a capella útsetningu af Queen-laginu „You Take My Breath Away“. Útsetningu fyrir sjö raddir þar sem raddirnar gegna m.a. hlutverkum hljóðfæra og bakradda. „Lagið er í rauninni fyrir hausttónleikana en við ætlum að lauma því að, gefa dálítinn forsmekk. Útsetningin er svakalega flókin en óhemjufalleg,“ segir Gunnar um Queen-slagarann. Raddirnar fari upp og niður og út um allt og útsetningin bjóði upp á skemmtileg og óvænt hljómasambönd sem reyni mjög á eyru gesta og raddbönd kórsöngvara.

Viðtalið við Gunnar Ben má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag, miðvikudag. 

Frekari upplýsingar um kórinn má finna á Facebook-síðu hans. Miðasala á tónleikana fer fram á tix.is og við innganginn. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »