Sumarið er komið því malbikun er hafin

Framkvæmdir við mislæg gatnamót yfir Miklubraut standa yfir í dag.
Framkvæmdir við mislæg gatnamót yfir Miklubraut standa yfir í dag. mbl.is/Hallur Már

Vorboðar sumarsins eru ekki eingöngu syngjandi smáfuglar heldur einnig stórar malbikunarvélar á götum landsins. Sumarið er komið því viðhald vega landsins er hafið á björtustu mánuðum ársins.  

„Þegar sólin fer að skína og hlýnar í veðri þá fer þetta af stað. Allt mjög hefðbundið,“ segir Birkir Hrafn Jóakimsson, verkfræðingur og verkefnastjóri viðhalds hjá Vegagerðinni, spurður um malbikunarvinnu sumarsins.

Í dag má búast við töfum á umferð á tveimur stöðum á höfuðborgarsvæðinu vegna viðhaldsvinnu á vegum. Annars vegar á hringtorgi á Vífilsstaðavegi við Vífilsstaði og því verður lokað að hluta. Áætlað er að sú vinna standi yfir milli kl. 11 til 15 í dag. 

Hins vegar er það frárein af Skeiðavogi niður á Miklubraut til austurs. Fráreininni verður lokað og áætlað er að vinna standi yfir til kl. 18 í dag.

Verktakar þurf að spila eftir eyranu

Verkefnin eru fjölmörg í sumar og eru hingað og þangað á götum höfuðborgarsvæðisins og einnig á landsbyggðinni. Þrjú verk voru boðin út sem innihalda marga vegkafla víðs vegar. Stærsta viðhaldsverkefnið í sumar er áframhaldandi malbikun á Hellisheiði einnig verður farið í að laga Reykjanesbrautina auk stofnvega í Reykjavík t.d. Sæbraut, Miklubraut, Kringlumýrarbraut og Reykjanesbrautina. „Þetta tekur alltaf mikið til sín,“ segir Birkir.  

Veðrið spilar stórt hlutverk í malbikunarframkvæmdum og því þarf að fylgjast vel með veðurspá. Þar af leiðandi er ekki unnt að skipuleggja framkvæmdir langt fram í tímann því skjótt skipast veður á lofti hér á landi. „Þeir sem sjá um framkvæmdir verða að spila þetta eftir eyranu,“ segir Birkir. Daginn fyrir framkvæmdir liggja fyrir upplýsingar um smærri verkefni en vegfarendur fá þó vitneskju um stærri verkefni með lengri fyrirvara. Verktakinn er oftast með tvo vinnuflokka á daginn og einn sem vinnur á nóttunni.

Þar af leiðandi eru vegfarendur hvattir til að fylgjast með upplýsingum um framkvæmdir meðal annars á vef Vegagerðarinnar, á Facebook og twitter, á vef Samgöngustofu og fylgjast með tilkynningum í fjölmiðlum og einnig í útvarpi.

Lokið fyrir skólabyrjun

Samkvæmt verkáætlun á öllum framkvæmdum að vera lokið 15. ágúst en köflum innan höfuðborgarsvæðisins fyrir 1. ágúst. „Við viljum ná að klára hér áður en skólarnir byrja. Ef veðrið leikur okkur grátt gætum við þurft að teygja úr þessu,“ segir Birkir.

Þrátt fyrir rigningasumarið mikla í fyrra náðist að klára allt á réttum tíma. „Menn voru orðnir stressaðir. Ég viðurkenni það. Verktakinn stóð sig mjög vel og fór að vinna meira á nóttinni til að ná að klára,“ segir Birkir.

Í fyrra teygðist hins vegar úr framkvæmdum við viðbótarvegkafla fram í september. Ástæðan er sú að viðbótarfjármagn fékkst í þær framkvæmdir í maí. Spurður hvort það sami verði upp á teningnum núna í maí segist hann ekki reikna með því.   

„Þokkalegt. Við vildum geta gert meira. Við erum enn með halann eftir hrunið,“ segir hann spurður um viðhald á vegum landsins.

Þarf bara einn ökumann til að valda stórslysi  

„Almennt eru ökumenn tillitssamir. Þetta er stórhættulegt vinnuumhverfi þar sem er mikill hraði. Það þarf ekki nema einn til að valda stórslysi,“ segir Birkir og brýnir fyrir ökumönnum að virða hraðatakmarkanir á vinnusvæði.

Hann segir stefnuna alltaf vera að sinna framkvæmdum svo umferð raskist sem minnst. Það græða allir á því. Á umferðaþyngstu vegunum er unnið á nóttinni. „Óhjákvæmilega taka framkvæmdir oft meira en sólarhring og þá teygjast þær fram á morguninn,” segir hann og nefnir sem dæmi að framkvæmdir á Ártúnsbrekkunni í fyrra. Það hafi hins vegar gengið vel og ökumenn almennt sýnt biðlund.

mbl.is