Tafir vegna fræsunar og malbikunar

Starfsmenn við malbikun.
Starfsmenn við malbikun. mbl.is/Eggert

Töluverðar umferðartafir hafa orðið vegna fræsunar og malbikunar fráreinar af Skeiðarvogi niður á Miklubraut til austurs.

Að sögn Ómars Smára Ármannssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns höfðu framkvæmdirnar verið auglýstar á vef Vegagerðarinnar. Þar kemur fram að áætlað er að vinnan standi yfir frá klukkan 9 til 18 í dag.

Reynt verður í sumar að hafa vegaframkvæmdir á stofnbrautum á kvöldin og um nætur en annars staðar verður ekki hjá því komist að hafa þær á daginn, að sögn Ómars Smára.

Hann segir engar kvartanir hafa borist lögreglunni vegna framkvæmdanna í dag. Aðspurður býst hann við áframhaldandi vegaframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu nánast alla daga í sumar á meðan veðrið verður gott.

mbl.is