„Það þarf sterka vöðva til að stjórna þessu!“

Jeff Coffman flugstjóri í flugstjórnarklefa The Spirit of Benovia.
Jeff Coffman flugstjóri í flugstjórnarklefa The Spirit of Benovia. Ljósmynd/Vala Hafstað

Langar biðraðir mynduðust á Reykjavíkurflugvelli í gærkvöldi þegar fimm DC-3 vélar voru sýndar almenningi. Gestum var boðið að fara um borð í tvær þeirra. Vélarnar eru hluti af leiðangri 15 slíkra véla, D-Day Squadron, sem farinn er frá Oxford, Connecticut, til Normandí í Frakklandi til þess að minnast þess að 6. júní verða liðin 75 ár frá innrás bandamanna í Normandí, innrás sem markaði upphafið að lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Joe Anderson, eigandi The Spirit of Benovia, býður gesti velkomna …
Joe Anderson, eigandi The Spirit of Benovia, býður gesti velkomna á Reykjavíkurflugvelli. Ljósmynd/Vala Hafstað

Blaðamaður mbl.is var á staðnum og fékk tækifæri til þess að fara um borð í The Spirit of Benovia, DC-3/C-53 Skytrooper flutningavél í eigu Joe Anderson, formanns og stofnanda Benovia víngerðarinnar í Santa Rosa, Kaliforníu. Hann og kona hans, Mary Dwane, festu kaup á flugvélinni haustið 2008 og breyttu þá nafni hennar í Spirit of Benovia, eða Andi Benoviu, í höfuðið á víngerð sinni  og vínanda í Sonoma sýslu.

Löng biðröð myndaðist við The Spirit of Benovia á Reykjavíkurflugvelli.
Löng biðröð myndaðist við The Spirit of Benovia á Reykjavíkurflugvelli. Ljósmynd/Vala Hafstað

Þegar blaðamann ber að garði eru Anderson og áhöfnin nýlent á vellinum. Hann stendur stoltur við vélina og hleypir gestum inn með vingjarnlegu brosi. Inni í vélinni, sem einu sinni var flutningavél, eru nú 13 þægileg leðursæti. Í flugstjórnarklefanum er flugstjórinn Jeff Coffman. Hann segir flugið frá Grænlandi hafa gengið vel. „Veðrið setti strik í reikninginn, því við gátum ekki flogið í meira en 12.000 feta hæð, en annars gekk þetta vel.“

Frá Oxford, Connecticut, flugu vélarnar til Goose Bay í Kanada. Sumar vélanna voru enn veðurtepptar í Goose Bay í gær, að sögn Coffmans, en hann reiknar með að þær komist til Íslands í dag.

Tvær DC-3/C-47 vélanna á Reykjavíkurflugvelli.
Tvær DC-3/C-47 vélanna á Reykjavíkurflugvelli. Ljósmynd/Vala Hafstað

„Hinar fjórar tóku eldsneyti í Narsarsuaq, en ég ákvað í staðinn að fljúga norður til Søndre Strømfjord. Flugið þaðan tók fimm klukkustundir og fimm mínútur.“

En hvað skyldi vera erfiðast við að fljúga þessari vél? „Þú þarft að skilja þessi gömlu kerfi og kunna að halda vélinni við,“ svarar Coffman.

Ein DC-3/C-47 vélanna á Reykjavíkurflugvelli.
Ein DC-3/C-47 vélanna á Reykjavíkurflugvelli. Ljósmynd/Vala Hafstað

Vélin á sér langa sögu. Samþykkt fyrir henni var fengin í maí, 1942, og hún afhent mánuði síðar. Fyrsta flugið fór hún 1. júlí sama ár. Samkvæmt vefsíðunni benovia.com flaug hún yfir Himalajafjöllin til stuðnings bandamönnum gegn Japan í síðari heimsstyrjöldinni. Eftir stríðið var hún seld Civil Air Transport í Taiwan og tók þátt í flutningi kínverskra þjóðernissinna frá Kína til Taiwan eftir a kommúnistar tóku völd í Kína. Vélin hélt áfram leynilegum leiðöngrum gegn kommúnistum í Suðaustur Asíu, sem hluti af Air America flugfélagi bandarísku leyniþjónustunnar, CIA.

Einn þristanna á Reykjavíkurflugvelli.
Einn þristanna á Reykjavíkurflugvelli. Ljósmynd/Vala Hafstað

Aðspurður hvað honum þyki mest spennandi við að fljúga vélinni svarar Coffman: „Ævintýrið og útsýnið. Það var stórkostlegt á köflum – við flugum meðfram jökulbreiðunni – og auðvitað móttökurnar, þetta yndislega fólk.“

Það er greinilega ekki létt verk að fljúga slíkri vél. Coffman bendir á stjórntækin og segir: „Það þarf sterka vöðva til að stjórna þessu!“ Þessi flugstjórnarklefi er ólíkur þeim sem hann situr vanalega í, sem er ýmist í Cessna Citation eða Gulfstream þotum.

Héðan liggur leiðn til Dyflinnar á Írlandi á morgun og þaðan til Duxford, sem er þorp norðan við Lundúnir. Fimmtán þristar frá Evrópu munu þar bætast í hóp þeirra 15 sem héðan koma og í sameiningu munu þeir fljúga yfir Ermarsundið til Normandí í tíma fyrir hátíðahöldin 6. júní.

Coffman brosir út að eyrum allan tímann sem á viðtalinu stendur. Hann er himinlifandi yfir að fá að taka þátt í þessari merku för.

 Fimm vélanna sem koma munu til Reykjavíkur af þessu tilefni tóku þátt í innrásinní í Normandí 1944.

Faðir Andersons, eiganda The Spirit of Benovia, og tveir frændur hans voru hermenn í síðari heimsstyrjöldinni. Á vefsíðu sinni segir Anderson: „Það er okkur mikilvægt að heiðra alla sem börðust fyrir frelsi okkar. Þetta mun verða áhrifamikil hátíð, því enn eru sumir hermannanna á lífi, og þeir verða okkar á meðal.“

mbl.is