„Tími kominn til að höggva á hnútinn“

Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC.
Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC. mbl.is/Eggert

Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC, gerði þá kröfu í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness að flugvélin TF-GPA, sem er af tegundinni Airbus A321 og hefur verið kyrrsett á Keflavíkurflugvelli frá falli WOW air, verði tekin með beinni aðfaragerð af sýslumanni frá Isavia og afhent flugvélaleigufyrirtækinu ALC. Þetta kom fram í munnlegum málflutningi málsins í dag, en þetta er annað aðfararmálið sem ALC höfðar gegn Isavia fyrir dómstólum.

Í fyrri úrskurði héraðsdóms var kyrrsetning vélarinnar heimiluð meðan gjöld vegna flugvélarinnar væru ógreidd. Sú upphæð hefur verið metin 87 milljónir, en Isavia telur hins vegar að vélin sé veð fyrir öllum skuldum WOW air við Isavia, samtals um 2 milljarðar. Í kjölfar fyrri úrskurðarins greiddi ALC 87 milljónir til Isavia, en hið síðarnefnda kærði úrskurð héraðsdóms til Landsréttar.

Oddur sagði í málflutningnum að ALC hafi hagað sér miðað við þennan úrskurð, samkvæmt bestu upplýsingum sem ALC hefði frá Isavia. Til að réttlæta að nú væri gerð önnur aðfararbeiðni meðan hitt málið væri fyrir Landsrétti sagði Oddur að greiðslan breytti stöðunni. „Aðstæður eru nú aðrar en eftir uppkvaðningu síðasta úrskurðar,“ sagði hann og vísaði aftur til þess að skuldin hefði verið greidd.

Sagði hann Isavia hins vegar hafa neitað ALC um nákvæmar upplýsingar um gjaldfallna skuld vegna vélarinnar og því væri greiðslan eftir bestu vitund og að Isavia þyrfti að bera hallann af því ef upphæðin væri röng, þar sem félagið hefði ekki gert tilraun til að leiðrétta hana með neinu móti.

Oddur sagði rök Isavia meðal annars vera þau að kyrrsetja vélina til að ná til skulda systurfélaga og/eða móðurfélagsins, en það væri ekki í samræmi við lög og með þessu væri Isavia að útvíkka loftferðalög. Sagði hann að í þessu fælist að útvíkka ábyrgð móðurfélaga til skulda dótturfélaga.

Eins og áður hefur komið fram er verðmæti þotunnar sem deilt er um mun meira en skuldir þotunnar við Isavia sem og heildarskuldir allra flugvéla WOW air við Isavia. Sagði Oddur að nú það gengi ekki að vélinni væri haldið í þennan tíma og það væri að valda ALC miklum skaða. „Nú er tími kominn til að höggva á hnútinn,“ sagði Oddur áður en hann lagði málið í dóm.

mbl.is