Bergþór ánægður með úrskurðinn

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, er sáttur við úrskurð Persónuverndar þess efnis að Báru Halldórsdóttur hafi verið óheimilt samkvæmt lögum að taka upp samræður hans og fimm annarra þingmanna á barnum Klaustri í Reykjavík í nóvember.

Haft er eftir Bergþóri á fréttavef Ríkisútvarpsins að málið hafi þó ekki enn verið rætt efnislega á meðal þingmannanna þar sem þeir hafi verið of uppteknir til þess við þingstörf. Niðurstaðan sé ánægjuleg en þingmennirnir hafi viljað leiða í ljós hvort fólk á Íslandi gæti átt von á því að það þætti í góðu lagi að einkasamtöl þess væru tekin upp.

Báru var ekki gert að greiða sekt en hins vegar þarf hún að eyða upptökunni. Bergþór segir í fréttinni að markmiðið hafi ekki verið að ná fjármunum af henni heldur hafi verið lagt til að henni yrði gert að greiða lágmarkssekt til þess að árétta þær reglur sem giltu í þessum efnum hér á landi.
mbl.is