Dreifa álaginu á milli starfsmanna

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis.
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis. mbl.is/RAX

Reynt hefur verið að skipuleggja mál þannig að álagið vegna umræðna um þriðja orkupakkann sem hafa staðið yfir þrjár nætur í röð dreifist sem best á milli starfsmanna Alþingis.

„Það eru vissir hlutir sem þurfa að vera algjörlega í lagi. Skrifstofan er margþætt. Sumt í starfsemi hennar er tiltölulega óháð þinghaldinu í salnum en þetta hefur áhrif á mjög marga starfsmenn og þetta er vissulega álag, það er ekki hægt að neita því,“ segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis.

Ekki hefur verið kallað í auka mannskap vegna stöðunnar og segir Helgi menn bera sig vel þrátt fyrir meira álag en vanalega.

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, í ræðustól.
Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, í ræðustól. mbl.is/Hari

Sjálfur segist hann hafa marga fjöruna sopið á löngum ferli en viðurkennir að staðan núna sé mjög óvenjuleg. „Við höfum auðvitað búið við þetta málþófsástand alla tíð og það er ákaflega erfitt að þingstörfin skuli fara þannig fram.“

Spurður út í aukakostnað Alþingis vegna umræðnanna segir hann ekkert liggja fyrir um hann. Hluti starfsfólksins er á föstu kaupi og fær það ekkert sérstaklega greitt fyrir að starfa á næturnar.

mbl.is