Páll Sveinsson hitti erlendu Þristana

Fimm Þristar, flugvélar af gerðinni Douglas DC-3 og Douglas C-47, lentu á Reykjavíkurflugvelli í dag á leið sinni frá Bandaríkjunum til Frakklands til þess að taka þátt í hátíðarhöldum í tilefni af því að 6. júní verða 75 ár frá innrásinni í Normandí sem gegndi mikilvægu hlutverki við það að binda enda á síðari heimsstyrjöldina og tryggja bandamönnum sigur í henni.

Flugvélar þessarar gerðar sáu einkum um að flytja fallhlífarhermenn Bandaríkjamanna inn yfir Frakkland, sem þá var hernumið af Þjóðverjum, en hermennirnir svifu síðan til jarðar bak við víglínuna til þess að tryggja brýr og aðra mikilvæga staði. Bandamenn notuðu slíkar flugvélar mikið í styrjöldinni, bæði til þess að flytja hergögn og hermenn.

Tekið var vel á móti Þristunum sem komu til landsins í dag en áður höfðu fimm aðrir Þristar komið til landsins á leið sinni til Frakklands. Margir lögðu leið sína á Reykjavíkurflugvöll til þess að berja flugvélarnar augum líkt og hinar fimm fyrr í vikunni. Þá mætti íslenski Þristurinn, Páll Sveinsson, einnig á staðinn til þess að taka á móti gestunum.

mbl.is