Stal áfengi en síminn varð eftir

mbl.is/Shutterstock

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um þjófnað af hóteli í Austurbænum (hverfi 105) um eitt í nótt en þar hafði maður stolið áfengi og hrint afgreiðslustúlku í gólfið. 

Maðurinn vildi fá afgreitt áfengi en var synjað þar sem búið var að loka fyrir afgreiðslu. Maðurinn fór sjálfur í kæli og tók þar áfengisflöskur. Þegar afgreiðslustúlka reyndi að stöðva manninn hrinti hann henni í gólfið og hljóp út en missti við það farsíma sinn. Síðar kom vinur mannsins og ætlaði að sækja símann en sá þá lögreglu og hljóp burt.  Númer símans er skráð og verður málið rannsakað.

Bifreið ekið á ljósastaur á Vesturlandsvegi í nótt og var ökumaðurinn fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild en hann kvartaði um brjóstverk. Bifreiðin flutt af vettvangi með Króki.

Brotist var inn í geymslu í fjölbýlishúsi í Vesturbænum (hverfi 107) í gærkvöldi og þaðan stolið þremur ferðatöskum. Síðan var ökumaður undir áhrifum fíkniefna og próflaus stöðvaður í umferðinni og annar sem var undir áhrifum áfengis. Einn gistir fangageymslur sökum ástands en hann var handtekinn ofurölvi í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert