Þröngur veðurgluggi veldur röð á tindinn

Eins og sjá má var biðröðin upp á Everest löng …
Eins og sjá má var biðröðin upp á Everest löng í gær. AFP

Þröngur veðurgluggi veldur því á nokkurra ára fresti að löng röð myndast af fjallgöngugörpum á leið á tind Everest, líkt og sjá mátti á mynd sem tekin var af fjallinu í gær. Þetta segir Vilborg Arna Gissurardóttir fjallagarpur og Everestfari, en þrír Íslend­ing­ar toppuðu hæsta fjall heims í morgun.

Vilborg Arna segir aðstæður ekki hafa verið með þessu móti þegar hún náði á tind Everest árið 2017. „Þetta er ekki alltaf svona og langt frá því að þetta sé hversdagslegur fjöldi á tindinum,“ segir hún í samtali við mbl.is. Sambærilegar myndir hafi þó birst áður. „Á nokkurra ára fresti þá eru veðurgluggarnir svo þröngir og fáir að það fara eiginlega allir á sama tíma.“

Hún segir veðurgluggann hafa komið seint þegar hún fór á tindinn, en hann hafi þá dreifst yfir miklu fleiri daga. „Þannig að við vorum í kringum 40 sem vorum að reyna að toppa þann daginn,“ bætir hún við og segir þau hafa verið sex á tindinum á sama tíma.

Vilborg Arna Gissurardóttir á toppi Everest árið 2017.
Vilborg Arna Gissurardóttir á toppi Everest árið 2017. Ljósmynd/Instagram Vilborg Arna Gissurardóttir

Komnir langa leið til að reyna við toppinn

Vilborg Arna segir veðrið ekki síður hafa áhrif á tindafara hér á landi, en hún er á leið með hóp á Hvannadalshnjúk um næstu helgi. „Það verða margir á Hvannadalshnjúki þá því þá eru góðar aðstæður, en það voru ekki góðar aðstæður um síðustu helgi,“ segir hún.

Á Everest hafi veðurglugginn verið mjög þröngur þetta árið og ekki annar gluggi fyrirséður í bráð og menn eru komnir mjög langa leið til að reyna við toppinn. „Það voru kompaní að fara upp í dag sem alla jafna reyna að fara upp í síðasta holli,“ útskýrir Vilborg Arna og segir það segja sína sögu um hversu stuttur glugginn hafi verið.

Líkt og áður sagði komust þrír Íslendingar á Everest tind í dag, þeir Bjarni Ármanns­son, Leif­ur Örn Svavars­son og Lýður Guðmunds­son. Leifur Örn varð með því eini Íslendingurinn sem hefur komið á tind Everest í tvígang, en hann hefur áður farið upp fjallið norðanvert. Sú leið er fáfarnari og þykir erfiðari. „Sú leið er kaldari og toppdagurinn sjálfur er meira krefjandi þar sem hluti leiðarinnar liggur um hrygg í yfir 8.000 metra hæð,“ segir Vilborg Arna.

Stefnir enn á Adventure Grand Slam

Lýður náði síðan með ferðinni á tindinn í dag svonefndri Adventure Grand Slam, sem felur í sér að hafa farið á báða pólana og tindana sjö. „Það eru mjög fáir á heimsvísu sem hafa náð því þannig að það er náttúrlega bara mjög flott,“ segir Vilborg Arna og bætir við að Everest sé ekki einn tindanna sjö um að vera erfiður. „Denali í Norður-Ameríku er mest krefjandi fyrir utan Everest. Hann er mjög kaldur og krefjandi. Það er alvörufjall eins og maður segir,“ útskýrir hún. „Síðan er það Aconcacua í Suður-Ameríku. Það er ekki tæknilega erfitt, en það er mjög hátt. Þegar ég fór þangað, þá var mjög kalt þar á toppdaginn þannig að aðstæður voru mjög krefjandi.“

Sjálf stefnir Vilborg Arna enn á að ná Adventure Grand Slam. „Ég á norðurpólinn eftir, segir hún og hlær. Norðurpóllinn sé alltaf á dagskrá hjá sér þótt hún sé ekki enn komin með tímasetningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert