Tveir landsréttardómarar sækja um stöðuna á ný

Tveir af átta umsækjendum um embætti landsréttardómara eru í hópi …
Tveir af átta umsækjendum um embætti landsréttardómara eru í hópi fjögurra dómara sem þáverandi dómsmálaráðherra skipaði í stað þeirra fjögurra sem hæfisnefnd mat hæfasta á fimmtán manna lista. mbl.is/Hallur Már

Tveir af átta umsækjendum um embætti landsréttardómara eru í hópi fjögurra dómara sem Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, skipaði í stað þeirra fjögurra sem hæfisnefnd mat hæfasta á fimmtán manna lista. Það eru Ásmundur Helgason og Ragnheiður Bragadóttir.

Embættið var aug­lýst laust eft­ir að Vil­hjálm­ur H. Vil­hjálms­son sagði starfi sínu lausu í byrj­un mánaðar­ins vegna ald­urs. Stefnt er að því að skipa í embættið frá og með 1. september 2019 eða hið fyrsta eftir að dómnefnd um hæfni umsækjenda um dómaraembætti hefur lokið störfum.

Dómararnir fjórir hafa ekki tekið þátt í störfum Landsréttar eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu í mars að dómarar við Landsrétt hefðu verið ólöglega skipaðir. Þrír voru starfandi við dómstólinn en Ragnheiður er í námsleyfi til 30. júní. Þau halda launum sínum á meðan þau sinna ekki störfum. 

Þá eru þrír af þeim fjórum sem voru ekki ráðnir þegar stöðurnar voru auglýstar á sínum tíma meðal umsækjenda; Ástráður Haraldsson, Jón Höskuldsson og Eiríkur Jónsson. Allir hafa þeir farið í mál við ríkið eftir að þeir fengu ekki stöðu dómara við Landsrétt.

Lista yfir umsækjendurna átta má sjá hér að neðan:

  • Ásmundur Helgason landsréttardómari
  • Ástráður Haraldsson héraðsdómari
  • Eiríkur Jónsson prófessor
  • Friðrik Ólafsson varaþingmaður
  • Guðmundur Sigurðsson prófessor
  • Jón Höskuldsson héraðsdómari
  • Jónas Jóhannsson lögmaður
  • Ragnheiður Bragadóttir landsréttardómari
mbl.is