Umsóknin svar við réttaróvissunni

Dómarar við Landsrétt í júní 2017. Ásmundur Helgason er efst …
Dómarar við Landsrétt í júní 2017. Ásmundur Helgason er efst til hægri. Hann, ásamt Ragnheiði Bragadóttur landsréttardómara, eru meðal umsækjenda um lausa stöðu dómara við Landsrétt en þau hafa ekki dæmt við Landsrétt frá því að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu var kveðinn upp í mars vegna Landsréttarmálsins svokallaða. Ljósmynd/Dómsmálaráðuneytið

„Ástæðan er auðvitað niðurstaða Mannréttindadómstólsins, þó að ég sé ekki sammála henni. Þetta skapar réttaróvissu um mitt umboð til að gegna dómstörfum. Mér fannst rétt að freista þess að endurnýja það umboð.“

Þetta segir Ásmundur Helgason, dómari við Landsrétt, í samtali við mbl.is. Ásmundur er meðal umsækjenda um stöðu dómara við Landsrétt sem losnaði eftir að Vilhjálmur H. Vilhjálmsson landsréttardómari ákvað að láta af störfum sökum aldurs.

Ásmundur er í hópi fjögurra dómara sem Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, skipaði við Landsrétt þegar dómstólnum var komið á laggirnar í upphafi árs 2018, en voru ekki meðal þeirra sem hæfnisnefnd hafði metið meðal 15 hæfustu. Ásmundur hefur ekki starfað við Landsrétt eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í mars sem komst að þeirri niðurstöðu að dómarar við Landsrétt hefðu verið ólöglega skipaðir.

Ásmundur segir að umsókn sín um laust embætti dómara við Landsrétt nú sé í raun ákveðið svar við þeirri réttaróvissu hvort umboð hans sé gilt. „Þó að ég sé sjálfur þeirrar skoðunar að svo sé.“

Fari svo að Ásmundur verði skipaður dómari við Landsrétt í það embætti sem Vilhjálmur skilur eftir sig segir Ásmundur að það leiði sjálfkrafa til þess að hann láti af embætti sem hann hlaut 2017. „Það er bundið í lög að það gerist,“ segir hann. Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður metur stöðuna öðruvísi, en hann sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að sitjandi dómarar við dómstól gætu ekki sótt um laus embætti við sama dómstól. Því ætti með réttu að virða umsóknir þeirra að vettugi.

Réttast að bíða eftir svari yfirdeildar MDE

Ásmundur segir að ekki sjái  fyrir endann á þeirri réttaróvissu sem upp er komin vegna dóms MDE og hún muni í fyrsta lagi skýrast þegar svar berst frá yfirdeild MDE um endurupptökubeiðni stjórnvalda.

„Ég hallast að því að á þessum tímapunkti sé rétt að bíða eftir því hvert svar yf­ir­deildar  Mannréttindadómstólsins verður. Það er kannski á þeim tímapunkti sem við stöndum frammi fyrir þeirri spurningu hvort við eigum að óska eftir leyfi eða fara að dæma aftur,“ segir Ásmundur, en á sama tíma segir hann það alls ekki víst að staðan skýrist þegar yfirdeild MDE svari því hvort málið verði tekið aftur upp innan dómstólsins. „Ef þeir segja að þetta sé skýr niðurstaða sem féll í mars þá er boltinn hjá Hæstarétti,“ segir Ásmundur.

„Aðeins snúnara og flóknara“

Þá segir Ásmundur að dómur Hæstaréttar í skattamáli íslenska ríkisins gegn Jóni Ásgeiri og Tryggva Jónssyni, sem kveðinn var upp á mánudag, sé ekki beint fordæmisgefandi fyrir landsréttarmálið, líkt og fram kemur í aðsendri grein Jóns Steinars í Morgunblaðinu í dag.

Ásmundur Helgason er í hópi fjögurra dómara sem Sigríður Á. …
Ásmundur Helgason er í hópi fjögurra dómara sem Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, skipaði við Landsrétt þegar dómstólnum var komið á laggirnar í upphafi árs 2018, en voru ekki meðal þeirra sem hæfnisnefnd hafði metið meðal 15 hæfustu.

Í niður­stöðu dóms­ins seg­ir að í ís­lensk­um lög­um sé ekki að finna heim­ild til end­urupp­töku máls í kjöl­far þess að Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu hafi kom­ist að þeirri niður­stöðu að brotið hafi verið gegn mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu við meðferð máls fyr­ir ís­lensk­um dóm­stól­um, við þær aðstæður sem uppi voru í máli Jóns Ásgeirs og Tryggva.

Jón Steinar bendir á í grein sinni að niðurstaða Hæstaréttar staðfesti þá afstöðu sem hefur áður komið fram í dómum Hæstaréttar um réttaráhrif dóma MDE hér innanlands. „Þeir hafa einfaldlega ekki bein réttaráhrif,“ skrifar Jón Steinar. Viðbrögðin, að hans mati, ættu því að verða þau að setja nú þegar dómarana fjóra til starfa sinna í Landsrétti.

„Ég sé ekki beinlínis að dómurinn gefi tilefni til þessarar ályktunar. Þetta er aðeins snúnara og flóknara en þarna er gefið til kynna,“ segir Ásmundur hins vegar og segir hann rétt að bíða eftir ákvörðun yfirdeildar MDE.

Ekki tilgangur réttarkerfisins að valda óvissu

Ásmundur segir stöðuna sem uppi er núna ekki beinlínis valda óvissu í huga dómaranna, heldur skapi ástandið óvissu fyrir þá sem þurfa að leita til dómstigs Landsréttar og það þurfi að leysa. „Þátttaka okkar veldur ekki óvissu í okkar huga heldur skapar það réttaróvissu fyrir aðila málsins. Þeir geta ekki vegna stöðunnar sem uppi er verið í vissu með að úrlausn sem við komum nálægt, að hún sé endanleg. Tilgangurinn með réttarkerfinu er að leysa úr réttarágreiningi og leiða mál til lykta, en ekki valda réttaróvissu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert