Vantar ákvæði um auðkennaþjófnað

Engin ákvæði eru í hegningarlögum um auðkennaþjófnað sem gerir ákæruvaldinu erfitt fyrir að sækja slík mál að sögn Kolbrúnar Benediktsdóttur varahéraðssaksóknara. Ekki var talið líklegt að sakfelling næðist í máli þar sem maður þóttist vera annar maður til þess að nauðga konu og þvinga hana til samræðis við aðra menn.

Sá sem maðurinn þóttist vera var alveg grunlaus og í fréttum Stöðvar 2 í gær kom fram að hann hefði sjálfur verið beittur ofbeldi vegna málsins auk þess að hafa verið grunaður um alvarlegt ofbeldi um langt skeið.

Kolbrún segir erfitt að eiga við mál af þessu tagi eins og lögin eru nú. „Það þarf að skoða það að mínu mati hvort það sé ástæða til að setja inn í hegningarlögin eitthvert ákvæði sem tekur á auðkennaþjófnaði,“ sagði Kolbrún í samtali við mbl.is fyrr í dag.

mbl.is