Vilja innlegg íbúa við gerð nýs leiðanets

Mikil áhersla er lögð á samráð við íbúa höfuðborgarsvæðisins og …
Mikil áhersla er lögð á samráð við íbúa höfuðborgarsvæðisins og hefur stutt könnun því verið gerð aðgengileg á vef Strætó. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vinna er hafin við nýtt leiðanet Strætó sem er skipulagt með það að markmiði að tengja vagna Strætó við fyrsta áfanga Borgarlínu. Þá kalla skipulagsbreytingar á Hlemmi og umferðarmiðstöð BSÍ einnig á breytingu á núverandi leiðakerfi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Strætó. Þar segir að faghópur um almenningssamgöngur hafi verið skipaður í byrjun febrúar og áætlað sé að hann skili tillögu að nýju leiðaneti til stjórnar Strætó í nóvember.

Mikil áhersla er lögð á samráð við íbúa höfuðborgarsvæðisins og hefur stutt könnun því verið gerð aðgengileg á vef Strætó. Sem flestir íbúar eru hvattir til þess að gefa sér nokkrar mínútur til að svara könnuninni.

Sæti í faghóp um almenningssamgöngur eiga fulltrúar úr leiðakerfi Strætó, fulltrúar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, fulltrúi Vegagerðarinnar, fulltrúi Samtaka um bíllausan lífstíl og fulltrúi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

mbl.is