18 ára á 177 km hraða

 Lögreglan stöðvaði bifreið á Kringlumýrarbraut (hverfi 105) um miðnætti eftir að hafa mælt bifreiðina á 177 km hraða. Ökumaðurinn er aðeins 18 ára og var hann færður á lögreglustöð þar sem mál hans var afgreitt og hann sviptur ökuréttindum til bráðabirgða. Á þessum stað er heimilt að keyra á 80 km hraða.

Tilkynnt var til lögreglunnar um ofurölvi mann á stigagangi fjölbýlishús í Breiðholti (hverfi 109) á tólfta tímanum í gærkvöldi. Lögreglumenn reyndu að aðstoða manninn við að komast heim en það gekk ekki sökum ástands mannsins.  Maðurinn er því vistaður í fangageymslu lögreglu meðan ástand hans batnar.

Fimm ökumenn voru stöðvaðir á höfuðborgarsvæðinu síðdegis í gær og gærkvöldi fyrir akstur undir áhrifum vímuefna. 

Lögreglan stöðvaði bifreið í hverfi 104 um klukkan 17 í gær. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum.

Á níunda tímanum gærkvöldi var bifreið stöðvuð í hverfi 108. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur. Á tíunda tímanum voru síðan þrír ökumenn stöðvaðir, tveir í Árbænum og einn í Kópavogi fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og fleiri brot. Einn ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, að aka sviptur ökuréttindum og vörslu fíkniefna. Annar er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna.  Farþegi í bifreiðinni er grunaður um vörslu fíkniefna og brot á lyfjalögum. Þriðji ökumaðurinn er síðan grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, að aka sviptur ökuréttindum, vörslu fíkniefna og brot á lyfjalögum. Farþegi í bifreiðinni er grunaður um vörslu fíkniefna og brot á lyfjalögum.

 Um klukkan 20 í gærkvöldi hafði lögreglan afskipti af þremur einstaklingum fyrir hnupl/þjófnað á snyrtivörum úr verslun í verslunarmiðstöð í Kópavoginum (hverfi 201). Brotist var inn í bifreið í miðborginni (hverfi 101) í gærkvöldi og stolið úr henni munum, að því er segir í dagbók lögreglunnar.

mbl.is