86 brautskráðir frá Flensborg

Alls luku 86 nemendur námi við Flensborgarskólann.
Alls luku 86 nemendur námi við Flensborgarskólann. Ljósmynd/Heiða Dís Bjarnadóttir

86 stúdentar voru útskrifaðir frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði í gær, af félagsvísinda- raunvísinda-, viðskipta- og hagfræðibraut, starfsbraut og opinni námsbraut. Alls luku 36 nemendur íþróttaafrekssviði sem hluta af stúdentsprófinu.

Dúx skólans er Steinunn Bára Birgisdóttir, með meðaleinkunnina 9,8. Steinunn útskrifast af raunvísindabraut með íþróttaafrekssviði. Tveir nemendur voru fast á hæla henni, með 9,7, þau Magnús Fannar Magnússon og Birgitta Þóra Birgisdóttir. „Svo skemmtilega vill til að þau þrjú fengu einmitt viðurkenningu fyrir tveimur árum sem þeir nýnemar sem náðu bestum árangri á fyrsta námsári,“ segir í tilkynningu frá skólanum.  

Steinunn Bára Birgisdóttir, dúx skólans, ásamt Magnúsi Þorkelssyni skólameistara.
Steinunn Bára Birgisdóttir, dúx skólans, ásamt Magnúsi Þorkelssyni skólameistara. Ljósmynd/Hildigunnur Guðlaugsdóttir

Í útskriftarathöfninni var sýnt myndband þar sem nýstúdentar lýstu brýnustu verkefnum framtíðarinnar og hvernig þau gætu lagt sitt af mörkunum við að gera Ísland að betra samfélagi. Hlýnun jarðar og sú loftslagsvá sem mannkynið stendur nú frammi fyrir voru nýstúdentum einkar hugleikin en einnig var fordómaleysi, velferð einstaklingsins og samkennd þeim ofarlega í huga.

Christopher Ólafsson ávarpaði samkomuna fyrir hönd nýstúdenta. Christoper hvatti samstúdenta sína til að láta drauma sína rætast og tilkynnti m.a. að nemendurnir myndu færa Ljósinustyrk sem þau söfnuðu við undirbúning útskriftarinnar.

mbl.is