Afstaða ráðherra stendur óhögguð

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, dómsmálaráðherra, segir að von sé á …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, dómsmálaráðherra, segir að von sé á svörum frá yfirdeild dómstólsins við endurupptökubeiðni stjórnvara í Landsréttarmálinu svokallaða innan fárra mánaða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dómur Hæstaréttar í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar breytir ekki þeirri ákvörðun dómsmálaráðherra að leita endurskoðunar á dómi Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í máli Guðmundar Ástráðssonar gegn íslenska ríkinu.

„Sá dómur er fordæmalaus, með afgerandi minnihlutaáliti og áhrifa hans mun gæta um Evrópu alla. Ísland er aðili að Mannréttindasáttmála Evrópu og því eðlilegt að leita svara yfirdeildar þegar dómur MDE vekur upp svo veigamiklar spurningar um túlkun sáttmálans fyrir öll aðildarríki,“ segir í skriflegu svari Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn mbl.is. Blaðamaður óskaði eftir viðtali en ráðherra kaus að veita skrifleg svör.

Íslenska ríkið hef­ur sent yf­ir­deild MDE beiðni um að Lands­rétt­ar­málið svo­kallaða verði end­ur­skoðað og Þórdís ítrekar að ekki verður gripið til frek­ari aðgerða í mál­inu fyrr en niðurstaða ligg­ur fyr­ir um hvort yf­ir­deild MDE taki málið upp að nýju. Segir hún að von sé á svörum frá yfirdeild dómstólsins innan fárra mánaða.

„Dómarar eru sjálfstæðir í störfum sínum“

Í niður­stöðu dóms­ Hæstaréttar í máli Jóns Ásgeirs og Tryggva frá því á mánudag seg­ir að í ís­lensk­um lög­um sé ekki að finna heim­ild til end­urupp­töku máls í kjöl­far þess að Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu hafi kom­ist að þeirri niður­stöðu að brotið hafi verið gegn mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu við meðferð máls fyr­ir ís­lensk­um dóm­stól­um, við þær aðstæður sem uppi voru í máli Jóns Ásgeirs og Tryggva.

Þórdís Kolbrún segir að það sé að endingu dómstólanna að meta hvort fyrri dómar þeirra hafi fordæmisgildi í öðrum málum, aðspurð hvort dómur Hæstaréttar hafi fordæmisgildi fyrir Landsréttarmálið.

Hvað varðar stöðu dómaranna fjögurra við Lands­rétt, sem ekki hafa starfað við dóm­stól­inn frá því í mars, þegar MDE komst að þeirri niður­stöðu að dóm­ar­ar við Lands­rétt hefðu verið ólög­lega skipaðir, bendir ráðherra á að allir dómarar við Landsrétt eru lögmætt skipaðir samkvæmt dómi Hæstaréttar í maí 2018.

„Dómarar eru sjálfstæðir í störfum sínum og meta sjálfir hæfi sitt til að dæma í málum á hverjum tíma. Allt það sem gæti viðkomið þessu máli og þróun þess hlýtur að vega inn í það mat,“ segir Þórdís Kolbrún.

mbl.is