Búið að opna inn að Landmannalaugum

Sigölduleið inn í Landmannalaugar er nú opin fyrir umferð.
Sigölduleið inn í Landmannalaugar er nú opin fyrir umferð. mbl.is/Brynjar Gauti

Byrjað er að opna fjallvegi á hálendinu eftir vorleysingar, en Vegagerðin er búin að opna veg 208 frá Sigöldu inn að Landmannalaugum. Hins vegar er vegurinn áfram lokaður austur af Laugum og því þarf að fara sömu leið til baka, en Dómadalsleið er einnig lokuð.

Einnig er orðið fært inn að Aldeyjarfossi og að Hrafnabjargafossum, inn af Bárðardal (nyrsti hluti F26) en lokunin er nú við Ísólfsvatn.

Haukadalsvegur, F333, er einnig opinn og austasti hluti Skjaldbreiðarvegar, F338. Þar er hægt að aka Haukadalsveg inn á Skjaldbreiðarveg og þaðan í austurátt inn á Kjalveg.

Nánari upplýsingar um opnun fjallvega má finna á vefsíðu Vegagerðarinnar.

mbl.is