Fá þyngri dóma fyrir farsakennd svik

Sakborningar í málinu, þrír íslenskir og einn nígerískur, höfðu áður …
Sakborningar í málinu, þrír íslenskir og einn nígerískur, höfðu áður hlotið á bilinu tveggja til fimm mánaða fangelsisdóma fyrir brot sín í héraði, en ákæruvaldið áfrýjaði málinu og fór fram á þyngri refsingar. mbl.is/Hari

Dómar þriggja einstaklinga, einnar konu og tveggja karla, sem sakfelld höfðu verið fyrir peningaþvætti í fjársvikafarsa sem teygði anga sína meðal annars til Suður-Kóreu, Hong Kong og Ítalíu, voru þyngdir af Landsrétti í dag.

Sakborningar í málinu, þrír íslenskir og einn nígerískur, höfðu áður hlotið á bilinu tveggja til fimm mánaða fangelsisdóma fyrir brot sín í héraði, en ákæruvaldið áfrýjaði málinu og fór fram á þyngri refsingar.

Á það féllst Landsréttur og eru Íslendingarnir þrír nú dæmdir til 8-12 mánaða fangelsisvistar fyrir brot sín, sem snúast um að hafa hjálpað erlendum manni við að svíkja fé út úr suður-kóreska félaginu Daesung Food One Co. Ltd. og hafa hag af því sjálf, en þessi erlendi maður, sem sakborningar kalla „Sly“, hafði komist inn í tölvupóstsamskipti á milli suðurkóreska fyrirtækisins og íslenska útgerðarfyrirtækisins Nesfisks ehf.

Íslendingarnir hjálpuðu þessum Sly að útvega sér íslenska bankareikninga til þess að taka á móti greiðslum, sem Daesung taldi sig vera að greiða Nesfiski ehf. vegna kaupa á fiskafurðum, en alls voru lagðar rúmar 53 milljónir króna inn á bankareikning í eigu eins ákærða. Hluti pen­ing­anna var svo flutt­ur úr landi, meðal ann­ars með mill­færsl­um inn á banka­reikn­ing í Hong Kong, með aðstoð nígeríska mannsins, sem í ákæru var sagður hafa komið gagngert til landsins í febrúar 2016 til þess að sjá um að umræddir fjármunir yrðu sendir tilteknum erlendum aðilum.

Tveggja mánaða fangelsisdómur sem hann hlaut í héraði stendur óraskaður, en dómar Íslendinganna þriggja voru þyngdir, sem áður segir. Hlýtur konan, sem er rúmlega fimmtug, þyngsta dóminn eða 12 mánuði og annar mannanna, sem er á fimmtugsaldri, fékk tíu mánaða fangelsisdóm.

„Útfararstjóri“ á meðal dæmdra

Einn sakborninga í málinu, Gunnar Rúnar Gunnarsson, fékk 8 mánaða fangelsi fyrir sinn hlut, en hann á töluverðan sakaferil að baki. Hefur hann meðal annars verið kallaður „útfararstjóri“ í fjölmiðlum, fyrir þá háttsemi að taka við stjórn fjölda fyrirtækja áður en þau fóru í þrot til þess að koma í veg fyrir að nöfn fyrri eigenda þeirra yrðu tengd við þrotið.

Þá hefur hann verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn börnum og einnig gegn andlega veikri konu, en fyrir það brot fékk hann þriggja og hálfs árs fangelsis dóm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert