Helga Lind nýr framkvæmdastjóri SHÍ

Helga Lind Mar hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla …
Helga Lind Mar hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Stjórn Stúdentaráðs Háskóla Íslands hefur ráðið Helgu Lind Mar í starf framkvæmdastjóra SHÍ, en Helga Lind er 31 árs laganemi við HÍ og hefur mikla reynslu þegar kemur að hagsmunabaráttu stúdenta, samkvæmt fréttatilkynningu frá SHÍ.

Helga Lind var áður í alþjóðanefnd Stúdentaráðs í tvö ár og varð síðar formaður nefndarinnar, en einnig tók hún þátt í því að stofna Landssamtök íslenskra stúdenta og sat í framkvæmdastjórn samtakanna frá 2013-2016. Þá var hún kjörin Alþjóðaforseti LÍS og kom að stefnumótun fyrir hönd námsmanna í Evrópu og starfaði Helga í kjölfarið í framkvæmdastjórn evrópsku stúdentasamtakanna ESU.

Utan háskólasamfélagsins hefur Helga komið að skipulagningu Druslugöngunnar og setið sem formaður hennar, borið ábyrgð á fjarmálum og bókhaldi göngunnar og gætt þess að hún sé rekstrarlega sjálfbær. Einnig hefur hún starfað við bókhaldsstörf hjá Ísafjarðarbæ, sem stuðningsfulltrúi og sem frístundaleiðbeinandi og forstöðumaður í afleysingum hjá félagsmiðstöð. Hún mun hefja störf á réttindaskrifstofu SHÍ 1. júní næstkomandi.

Kolfinna alþjóðafulltrúi og Kristín Nanna ritstjóri

Stúdentaráð greinir einnig frá því í fréttatilkynningu í dag að Kolfinna Tómasdóttir hafi verið ráðin í starf alþjóðafulltrúa SHÍ, sem er nýtt stöðugildi á skrifstofu Stúdentaráðs. Kolfinna er 25 ára gömul og stundar nám í lögfræði og Mið-Austurlandafræði við HÍ.

Í fréttatilkynningu kemur fram að Kolfinna hafi margra ára reynslu úr alþjóðlegu samstarfi, bæði innan háskólasamfélagsins og utan þess. Hún hefur meðal annars verið alþjóðaritari Orators, félags laganema, auk þess að hafa endurvakið Íslandsdeild ELSA, samtaka evróskra laganema.

SHÍ hefur einnig ráðið Kristínu Nönnu Einarsdóttur til starfa sem ritstjóra Stúdentablaðsins, en Kristín Nanna er 23 ára íslenskunemi við HÍ. Hún skrifaði fyrir Stúdentablaðið síðasta vetur og hefur því reynslu af störfum þess og leggur áherslur á að blaðið sé málgagn allra stúdenta, samið af stúdentum í þágu þeirra, samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu.

mbl.is