Með urðunina í Fíflholti til meðferðar

Urðunarsvæðið í Fíflholti á Mýrum. Eftirlitsmaður Umhverfisstofnunnar fór þangað í …
Urðunarsvæðið í Fíflholti á Mýrum. Eftirlitsmaður Umhverfisstofnunnar fór þangað í vettvangsferð í gær. Skjáskot/Rakel Steinarsdóttir

Umhverfisstofnun er nú með mál urðunarstarfseminnar í Fíflholti á Mýrum til meðferðar. Þetta kemur fram í skriflegum svörum stofnunarinnar við fyrirspurn mbl.is. Eftirlitsmaður frá Umhverfisstofnun fór í vettvangsferð að Fíflholti í gær til að skoða aðstæður og fara yfir málið með rekstraraðila, en urðunarstöðin rataði í fréttirnar í vikunni eftir að myndir voru birtar á samfélagsmiðlum sem sýndu rusl á víð og dreif fyrir utan stöðina.

Er Umhverfisstofnun nú að vinna úr þeim upplýsingum sem fengust í vettvangsferð eftirlitsaðila og mun gefa út eftirlitsskýrslu í kjölfarið sem birt verður á heimasíðu stofnunarinnar að loknum andmælafresti rekstraraðila stöðvarinnar.

Vilja stækka stöðina í Fíflholti upp í 25.000 tonn

23 urðunarstöðvar eru í landinu, sem Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir og hefur eftirlit með. Stærst þeirra er Sorpa í Álfsnesi sem hefur heimild til að urða allt að 120.000 tonnum á ári. Norðurá í Stekkjarvík, sem er samstarfsverkefni sex sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði hefur heimild til urðunar á allt að 21.000 árlega og Sorphirða Vesturlands í Fíflholti hefur heimild til urðunar á allt að 15.000 tonnum árlega, Tuttugu urðunarstaðir hafa svo heimild til að taka á móti og urða minna en 10.000 tonn og þar af hafa 14 staðir heimild til að urða undir 1.000 tonnum á ári.

Mbl.is hefur heimildir fyrir því að urðunarstöðin í Fíflholti hafi óskað eftir að fá að stækka árlega móttöku sína upp í 25.000 tonn. Halla Einarsdóttir, teymisstjóri mengunareftirlits Umhverfisstofnunnar, staðfestir í samtali við mbl.is að sótt hafi verið um breytingu á starfsleyfi urðunarstöðvarinnar. Segir hún verið að vinna að mati á umhverfisáhrifum og umsóknin verði unnin áfram þegar það liggur fyrir.

Urðunarstöð Sorpu í Álfsnesi. Þar er úrgangur baggaður til að …
Urðunarstöð Sorpu í Álfsnesi. Þar er úrgangur baggaður til að koma í veg fyrir fok. Stöðin er þó sú sem flestar kvartanir berast Umhverfisstofnun vegna og er það lykt frá urðunarstöðinni sem kvartað er yfir. mbl.is/Styrmir Kári

Úrgangurinn á að vera hulinn þekjulagi

Tryggvi Felixson, formaður Landverndar, gerði sér ferð að urðunarstöðinni á miðvikudag til að kynna sér aðstæður og sagði hann stöðuna ekki góða. „Það er greinilegt að þarna erum við með opna hauga. Það er skilyrði sem við búum við og þetta er kerfislægur vandi, sem ekki er hægt að segja að sé sök þeirra sem reka þennan stað,“ sagði Tryggvi í samtali við mbl.is eftir heimsókn sína.

Spurð hvort opnir haugar tíðkist víða segir Halla starfsleyfi urðunarstöðvanna kveða á um daglegan frágang urðunarreina, þar með talið að úrgangurinn sé hulinn þekjulagi. Jafnframt eru skilyrði um að rekstraraðili skuli viðhalda starfsháttum þannig að óþrifnaði, óþægindum og foki sé haldið í lágmarki frá urðunarstöðunum. Þannig séu til að mynda girðingar settar upp við urðunarstaðina í þeim tilgangi að fanga efni sem hugsanlega fýkur úr urðunarreinunum.

Varðandi þá aðferð að bagga úrgang til að koma í veg fyrir fok líkt og Sorpa gerir í Álfsnesi, segir hún það vissulega skynsamleg leið. „Þarna er hægt að skoða ýmsar leiðir. Aðalmálið er ef það verður fok, eins og þessar myndir gefa til kynna, þá þarf að herða eitthvað aðferðafræðina og við leggjum til að rekstaraðili leggi til einhverjar tillögur til að ná settum árangri.“

Flestar kvartanir vegna Sorpu

Starfsmenn Umhverfisstofnunar fara reglulega í eftirlitsferðir í urðunarstöðvar og fer tíðni vettvangsheimsóknanna eftir kerfisbundnu áhættumati á umhverfisáhrifum tiltekinnar starfsemi. Þess utan hefur stofnunin heimild til að fara í fyrirvaralausar vettvangsferðir ef alvarlegar ábendingar koma fram, frávik eru frá starfsleyfi eða til að fylgja eftir úrbótum frávika. Að sögn Höllu er öllum frávikum fylgt eftir til að knýja á um úrbætur og hefur Umhverfistofnun heimild til að beita þvingunarúrræðum, til að mynda áminningunum og dagsektum ef ekki er brugðist við með fullnægjandi úrbótum eða fullnægjandi tímasettri áætlun um úrbætur.

Meðfylgjandi tafla sýnir meðalafjölda skráðra frávika í hverri eftirlitsferð á úrgangsstaði á árabilinu 2013-2018 og vekur þar athygli skörp fjölgun frávíka árið 2016, sem ekki hefur gengið til baka þó meðalfjöldinn hafi vissulega lækkað.

Tafla/Umhverfisstofnun

Halla segir ýmsar skýringar geta verið á þessu, til að mynda breyttar áherslur í eftirliti, breyting á eðli starfsemi og árangri rekstraraðila

Spurð hvort Umhverfisstofnun berist mikið af kvörtunum vegna starfsemi urðunarstöðva segir Halla þær kvartanir sem berist séu aðallega vegna lyktar. „Ég get alveg fullyrt að mest af kvörtununum eru vegna lyktarmála frá Sorpu í Álfsnesi, en þar er nálægðin mest við byggð,“ segir hún. „Það hefur ekki verið mikið af kvörtunum vegna Fíflholta og raunar berst stofnuninni ekki mikið af kvörtunum vegna urðunarstöðva að öllu jöfnu.“ Af 45 kvörtunum sem skráðar voru á síðasta ári hafi 38 verið vegna Sorpu.

Urðun endastöð ef ekki er annar farvegur fyrir efnið

Formaður Landverndar gagnrýndi í samtali við mbl.is fyrr í vikunni að ólíkar reglur gildi hjá sveitarfélögum og eins séu fyrirtækin sem sinni sorphirðu og urðun mörg. „Þetta er líklega ekki hagkvæm lausn sem við höfum fundið á sorphirðu almennt,“ segir hann og bætti við að til lengri tíma litið gangi ekki að grafa svona stóran hluta af íslensku sorpi niður í jörðina. „Þetta eru verðmæti og við eigum að vera með þetta í hringrás í miklu meira mæli,“ sagði Tryggvi.

„Ég tek alveg undir þetta og þetta er markmiðið,“ segir Halla. „Urðun er endastöð ef ekki er annar farvegur fyrir efnið.“ Hún bendir á að í öðrum starfsleyfum sem Umhverfisstofnun gefur út er tekið fram að koma skuli öllu í endurnýtingu sem hægt er að endurnýta. „Það er algjört leiðarljós í okkar tilmælum,“ bætir hún við.

Það er hins vegar sveitarfélaga að ákveða sjálf sína flokkunar og endurvinnslustefnu og leggja þau mismikla áherslu á málaflokkinn.

Halla segir líka rétt að hægt sé að flokka og endurvinna í meira mæli en nú er gert ef horft er til þess rusls sem sent er til urðunar. „Ég held að við getum alveg sagt að það eru tækifæri til að gera betur í þeim málum,“ segir hún. Vel sé hægt að flokka betur á fyrri stigum það rusl sem í dag endi í blönduðum úrgangi.

mbl.is