Nettó í Lágmúlann

Gunnar Egill Sigurðsson framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.
Gunnar Egill Sigurðsson framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa. mbl.is/Víkurfréttir

Nettó opnar nýja lágvöruverðsverslun í Lágmúla 9 í dag og verða umhverfismál í forgrunni í versluninni. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Við munum leita allra leiða til að vera eins umhverfisvæn og við mögulega getum,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa. Í nýju versluninni verður meðal annars LED-lýsing sem sparar 40% orku, orkusparandi loftræsting og lok á öllum frystum sem sparar um 40% orku.

„Þá leggjum við gríðarlega áherslu á að flokka allt sorp sem til fellur í versluninni – allt frá lífrænu yfir í pappa, plast og almennt sorp,“ segir Gunnar Egill. Allt frá árinu 2015 hefur Nettó stuðlað að minni sóun og flokkun úrgangs sem hefur meðal annars skilað sér í því að sorp frá verslununum hefur minnkað um meira en 100 tonn á ári. „Þá höfum við boðið viðskiptavinum okkar að kaupa vörur sem nálgast síðasta söludag með afslætti undir merkinu „Minni sóun“ sem viðskiptavinir okkar hafa tekið opnum örmum.“ 

Nýja Nettóverslunin í Lágmúla verður opin alla daga frá kl. 10-21. Þar verður einnig afgreiðslustöð fyrir vefverslunarpantanir Nettó. Það hefur orðið algjör sprenging í netversluninni hjá okkur, segir Gunnar Egill í tilkynningu. „Við stefnum enda að því að opna fleiri afgreiðslustöðvar við verslanir okkar á næstu misserum.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert