„Nú er komið að börnunum“

„Það er ekki fálæti eða að fólk líti ekki á …
„Það er ekki fálæti eða að fólk líti ekki á þetta sem sitt starf, heldur hefur það ekki þekkingu á því hvernig á að fá börn til að tala eða bregðast við,“ mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Við höfum miklar áhyggjur af börnum á ofbeldisheimilum. Andvaraleysis hefur gætt í þeirra málum og miðað við hvaða aðstæður þau búa fá þau litla hjálp og litla þjónustu,“ segir Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins. 

Sigþrúður segir herferð UNICEF gegn ofbeldi gagnvart börnum mikið fagnaðarefni. 

„Við spyrjum konur sem koma í dvöl í Kvennaathvarfinu hvort það búi börn undir 18 ára aldri á ofbeldisheimilinu sem þær koma frá. Í fyrra vissum við af 280 börnum búsettum inni á þessum heimilum. Í 40% tilfella höfðu aðstæður þeirra verið tilkynntar til barnaverndar en aðeins 27% barnanna höfðu, að sögn mæðranna, fengið einhverja hjálp vegna ofbeldisins, og ef þau höfðu fengið hjálp var hún oftar en ekki mjög ómarkviss,“ segir Sigþrúður og nefnir þar m.a. að börnin hefðu átt góðan kennara sem þau gátu talað við, eða hefðu fengið eitt viðtal við sálfræðing.

Vill sjá miklu, miklu meira gert fyrir börnin

„Ég myndi vilja sjá miklu, miklu meira gert fyrir þessi börn. Það virðist vera að börn á ofbeldisheimilum detti á milli í kerfinu, eins og enn sé litið svo á að ástandi á heimilinu komi þeim ekki við eða hafi ekki mikil áhrif á þau, sem allar rannsóknir sýna okkur að er ekki rétt."

Sigþrúður Guðmundsdóttir.
Sigþrúður Guðmundsdóttir. mbl.is/Sigurður Bogi

Sigþrúður segir aðkomu og afskipti almennings af ofbeldi gagnvart börnum sé ábótavant. Kvennaathvarfið hafi farið í grunnskóla, sýnt börnum teiknimynd um ofbeldi þar sem þau eru hvött til að segja frá sem og undirbúið starfs- og fagfólk undir að bregðast við.

„Það hefur verið ánægjulegt að finna þorsta starfsfólks eftir aðstoð til þess að tækla þessi mál. Það er ekki fálæti eða að fólk líti ekki á þetta sem sitt starf, heldur hefur það ekki þekkingu á því hvernig á að fá börn til að tala eða bregðast við,“ segir Sigþrúður.

„Undanfarin ár hefur margt verið gert í málum snúa að heimilisofbeldi, sérstaklega þegar kemur að fullorðnum þolendum. Það er gríðarlega mikilvægt en minna hefur verið gert til að styðja börnin, eða það hefur allavega ekki skilað sér jafn vel. Nú er vonandi komið að börnunum.“

mbl.is