Vill skýrara regluverk um skattakóngalista

Unnið er að því að fara yfir hvaða upplýsingar birtast …
Unnið er að því að fara yfir hvaða upplýsingar birtast í álagningaskrá. mbl.is/Ófeigur

„Listinn mun ekki birtast. Það er ekki hlutverk ríkisskattstjóra að birta slíkar upplýsingar,“ segir Snorri Olsen ríkisskattstjóri. Ekki verður sendur út listi til fjöl­miðla með upp­lýs­ing­um um hæstu greiðend­ur líkt og löng hefð hef­ur verið fyr­ir.

Ástæðan er sú að embættið telur slíka birtingu ekki samrýmast ákvæðum um per­sónu­vernd og friðhelgi einka­lífs. Unnið er að því núna að finna út hvaða upplýsingar verða nákvæmlega í álagningarskrá. Hún verður ekki lögð fram fyrr en 19. ág­úst til 2. sept­em­ber. 

Snorri vísar í úrskurð Persónuverndar frá nóvember síðastliðnum um að fyr­ir­tæk­ið Visku­brunnur ehf. sem geymdi skatt­skrárupp­lýs­ing­ar og nefnd­ist Tekj­ur.is skyldi eyða gagnagrunni sínum. Úrskurðurinn vísaði meðal annars til þess að lögin miði við að þessar upplýsingar séu á pappír en ekki á netinu. 

„Þegar við rýndum í úrskurð stjórnar Persónuverndar, skoðuðum lagaheimildir okkar og framkvæmdina sáum við að við þyrftum að eyða ákveðinni óvissu svo við getum endanlega ákveðið hvaða upplýsingar verða í álagningarskránni. Hvað við megum setja í hana,“ segir Snorri. Sú vinna stendur yfir.

Í því samhengi nefnir hann að meðal annars er verið að skoða hvort öll kennitala einstaklinga verði gefin upp í stað eingöngu fæðingardags og árs, það er að segja fyrstu sex tölustafirnir eins og hefur verið undanfarið.   

„Ætlum að fara varlega“

Í nýju persónuverndarlögunum er gerð krafa um að þegar unnið er með persónuupplýsingar verði að vera hægt að benda á vinnsluheimildir, það er að segja af hverju unnið er með þessar upplýsingar og af hverju þær eru birtar. „Við erum að reyna að tryggja að við séum ekki að brjóta löggjöf sem tryggir friðhelgi einkalífsins. Það er ástæðan fyrir því að við ætlum að fara varlega,“ segir Snorri.

Snorri Olsen tók við sem ríkisskattstjóri í október hann gegndi …
Snorri Olsen tók við sem ríkisskattstjóri í október hann gegndi áður embætti tollstjóra ríkisins.



Ríkisskattstjóri kallar eftir skýrara regluverki í þessum efnum til að taka af allan vafa. Enginn annar en löggjafinn getur gert það. „Það er eðlilegt að þetta sé skoðað heildstætt hvernig við viljum hafa þessar reglur,“ segir Snorri. Núverandi regluverk byggist að hluta á því samfélagi þegar netið var ekki komið til sögunnar. 

Í dag er fólk miklu uppteknara af mannréttindum en var fyrir nokkrum árum, eins er ríkari krafa um friðhelgi einkalífs, að sögn Snorra. Hann tekur fram að lögin verði að endurspegla það sem og þær breytingar sem hafa orðið á miðlun upplýsinga á neti.  

Erfiðara að vinna upplýsingar úr álagningarskrá

„Þeir gætu hugsanlega gert það,“ segir Snorri, spurður hvort fjölmiðlar gætu sjálfir fundið upplýsingar um tekjuhæstu einstaklingana og unnið lista út frá þeim upplýsingum. Snorri bendir á að þegar álagningarskráin kemur í ágúst þá verður mögulega erfiðara að finna út úr þeim skrám með hundruð þúsund kennitalna. „Yfirferðin þurfti að vera nákvæm til að geta fullyrt að þessir einstaklingar séu tekjuhæstir og listinn réttur,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert