Glöð ef þau komast inn fyrir jólin 2021

Eftir tvö ár verður nýtt hjúkrunarheimili á Höfn risið ef …
Eftir tvö ár verður nýtt hjúkrunarheimili á Höfn risið ef áætlanir ganga eftir. Morgunblaðið/Golli

Nýtt hjúkrunarheimili á Höfn í Hornafirði með 30 rýmum verður tekið í notkun árið 2021 ef áætlanir ganga upp. Alls bárust 17 tillögur í samkeppni um hönnun nýs hjúkrunarheimilis að Víkurbraut. Stefnt er að því að greina frá vinningstillögum fyrir 1. júní næstkomandi.  

Hluti þess eru endurbætur á núverandi hjúkrunarheimili, Skjólgarði, sem nýbyggingin mun tengjast. Öll rýmin 30 verða einbýli. Eins og staðan er núna eru rýmin 24 á hjúkrunarheimilinu, sex dvalarrými og fjögur sjúkrarými. 

Gamla hjúkrunarheimilið verður nýtt undir aðra stoðþjónustu við hjúkrunarheimilið. Þar verður líklega líkhús og kapella. Vonir standa til að húsið geti einnig rúmað aðra þjónustu við eldri borgara eins og sjúkraþjálfun o.fl. 

Guðrún Dadda Ásmundardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Höfn í Hornafirði, segir löngu tímabært að bæta aðstöðuna fyrir eldri borgara. Einungis tvö einbýli eru núna í boði og eru herbergin minni en viðmiðin segja til um

Mikilsvirði að geta verið heima í héraði

Fjögur sjúkrarými eru á stofnuninni og eru þau með um 100% nýtingu. Hún segir þau nýtast vel og nýta eldri borgarar þau talsvert þar sem þeir þurfa frekar á endurhæfingu að halda eftir t.d. beinbrot. Þetta léttir til dæmis á fráflæðisvanda Landspítalans í Reykjavík.

Það er mikið öryggi fyrir fólk að vita að þú þurfir ekki að liggja um 500 km frá heimabyggð og getir komið heim í hérað í endurhæfingu. Það er mikilsvirði að vera heima því þar er stuðningsnetið og þú raskar ekki lífi allra þó þú þurfir á endurhæfingu að halda. Það er öryggi að þetta bjargræði er til staðar. Fólk treystir því að það er í lagi að eldast hér,” segir hún. 

„Ef við komumst inn fyrir jólin 2021 þá verðu við mjög glöð,“ segir hún spurð hvenær flutt verður inn i nýja hjúkrunarheimilið. 

mbl.is