Þingmenn að „bregðast þjóð sinni“

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, vandaði ríkisstjórn ekki kveðjurnar á …
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, vandaði ríkisstjórn ekki kveðjurnar á útifundi í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við erum saman komin hér í dag vegna þess að fólkið sem hefur tímabundið aðsetur í þessu húsi þarna er að bregðast þjóð sinni.“

Þannig hófst ræða Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, á útifundi um orkumál á Austurvelli fyrr í dag. Fyrir fundinum stóðu Orkan okkar og Gulvestungar, hópar sem hafa sett sig upp á móti samþykkt þingsályktunarinnar um þriðja orkupakka Evrópusambandsins.

Styrmir vísaði til Alþingishússins, er hann lét svo um mælt að þar væri fólk að „bregðast þjóð sinni.“

„Við erum saman komin hér í dag, til þess að segja þeim, sem hafa tímabundið aðsetur í þessu húsi, að það verður aldrei lagður sæstrengur til aðildarríkis Evrópusambandsins,“ sagði Styrmir þá. Á svipuðum nótum talaði hann í grein sinni í Morgunblaðinu í dag, þar sem hann hvatti landsfundur Sjálfstæðismanna myndi samþykkja að aldrei skyldi lagður sæstrengur frá Íslandi til aðildarríkis ESB.

Frummælendur á fundinum voru Styrmir Gunnarsson, Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi, Birgitta …
Frummælendur á fundinum voru Styrmir Gunnarsson, Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi, Birgitta Jónsdóttir fyrrum alþingismaður og Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur og frammámaður í Orkunni okkar. Facebook/Orkan okkar

Styrmir dró upp hliðstæðu á milli framsals á orkuauðlindum Íslendinga og þess, þegar Bretar „fóru ránshendi um fiskimið okkar.“ „Nú ætla fulltrúar nýrra kynslóða Íslendinga að opna þessum sömu nýlenduveldum leið inn í aðra auðlind okkar, orku fallvatnanna. Þeir eru að opna dyrnar fyrir þau til þess að gera Ísland að forðabúri Evrópu  í orkumálum á kostnað Íslendinga sjálfra,“ sagði hann.

„Það er enginn munur á því að afhenda Brussel yfirráð yfir fiskimiðunum við Ísland sem mundi gerast með aðild að Evrópusambandinu og því að fella orku fallvatnanna á Íslandi inn í regluverk Evrópusambandsins um orkumál,“ sagði Styrmir.

Sumir þingmenn sem hafa mælt fyrir þriðja orkupakkanum hafa bent á að í honum felist ekki framsal á meðan enginn sæstrengur er fyrir hendi. „Það þýðir ekki að segja: já, en það gerist ekki nema Alþingi samþykki sæstreng,“ sagði Styrmir í ræðu sinni. „Vegna þess að reynsla okkar af Alþingi seinni árin er sú að því er ekki að treysta,“ klykkti hann út með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert