Vilja meiri umfjöllun um afstöðu sína

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Hari

Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins, gagnrýndu fjölmiðla, og þá aðallega ríkisfjölmiðilinn, fyrir skort á umfjöllun um þau efnisatriði sem Miðflokksmenn hafa lagt áherslu á í málflutningi sínum um innleiðingu þriðja orkupakkans í ræðum sínum um málið á í morgun.

Bergþór sagði meðal annars að fjölmiðlar virtust „leggja litla áherslu á að kafa ofan í þau efnisatriði sem umdeild eru hér í þessu máli“ og í samtali við mbl.is segir hann að sú gagnrýni hafi helst beinst að Ríkisútvarpinu.

Bergþór segir RÚV ekki hafa flutt fréttir af „neinu öðru en lengd þingfunda eða hvort að það sé málþóf eða ekki í gangi, í staðinn fyrir að kafa ofan í þau efnisatriði sem eru umdeild“ á liðnum dögum, er Miðflokksmenn hafa ítrekað rætt orkupakkann langt fram eftir nóttu, í samtals rúmar 80 klukkustundir.

„Ég var aðallega að gagnrýna ríkisfjölmiðilinn fyrir það að á meðan að umræðan hefur verið í gangi í þinginu hefur ekki verið nein efnisleg umfjöllun. Mér þykja hvíla á þeim ákveðnar skyldur um að reyna að greina mál eins og þetta, en ekki bara flytja fréttir af því hversu langir fundir eru og hvort það sé málþóf eða ekki, en fram eftir götunum. En það er misjöfn krafa manna á ríkisfjölmiðilinn,“ segir Bergþór.

Vantar sæstrengssviðsmynd fram á sviðið

Spurður út í hvaða atriði það séu helst sem vanti upp á umfjöllun um segir Bergþór að ríkisstjórnin hafi ekki með fullnægjandi hætti, teiknað upp sviðsmynd um hvernig staðan verði, ef svo fari að Íslendingar innleiði þriðja orkupakkann og kjósi svo að leggja sæstreng einhverntímann í framtíðinni.

Um einmitt þetta fjallaði Sturla Böðvarsson í grein sinni í Morgunblaðinu fyrr í mánuðinum og sagði „óforsvaranlegt að samþykkja þriðja orkupakkann án þess að það liggi fyrir hvað gerist á orkumarkaði þegar sæstrengur hefur verið lagður og orkusalan hefst.“

Þetta segir Bergþór einungis eitt af þeim málum sem þurfi að skoða betur, varðandi þriðja orkupakkann, sem allir aðrir flokkar á Alþingi telja útrætt mál og ljóst er að nýtur stuðnings ríks þingmeirihluta.

mbl.is