Allir vilja upp við bestu aðstæðurnar

Mynd sem Leifur tók á fimmtudag af suðurtindi Everest sýni …
Mynd sem Leifur tók á fimmtudag af suðurtindi Everest sýni halarófu fjallgöngumanna alveg að norðurtindinum. Ljósmynd/Leifur Örn Svavarsson

Fjallgöngumaðurinn Leifur Örn Svavarsson, sem stóð á toppi Everest fjalls ásamt Lýði Guðmundssyni í vikunni, segir að enginn óski sér þess, hvað þá Íslendingar sem séu vanir því að vera einir á fjöllum, að vera á hæsta punkti veraldar í mannmergð. Það skemmi aðeins upplifunina.

Í samtali við mbl.is frá Nepal ræðir Leifur um ferðalagið og þá fordæmalausu stöðu sem kom upp á Everest í vikunni, er fleiri en 200 göngumenn héldu á tindinn sama daginn, tvo daga í röð.

„Við erum búnir að vera seinustu átta daga bara á stanslausu ferðalagi, að ganga upp og niður fjallið,“ segir Leifur og bætir við að það hafi verið mjög krefjandi, en Leifur Örn og Lýður eru búnir að vera alls hátt í 60 daga á ferðalagi, með það að markmiði að klífa hæsta fjall heims og það náðist síðasta fimmtudag, 23. maí.

Leifur Örn hafði farið áður á tindinn, en Lýður var að fara í fyrsta sinn og með því að fara Everest varð hann þriðji Íslendingurinn sem hefur náð hinni svokölluðu „ævintýra-stórslemmu“, sem felst í því að ganga hæstu tinda allra heimsálfa og inn á báða pólana. Einungis Haraldur Örn Ólafsson og Leifur Örn sjálfur höfðu áður náð að ljúka því afreki.

Lýður, sem er þekktur úr heimi íslenskra viðskipta og oft kenndur við fyrirtækið Bakkavör, hefur unnið að markmiði sínu í meira en áratug og Leifur Örn hefur verið honum til halds og trausts í mörgum ævintýraferðum.

Leifur Örn Svavarsson, fjallaleiðsögumaður.
Leifur Örn Svavarsson, fjallaleiðsögumaður. mbl.is/Styrmir Kári

Ferðin dróst vegna veðurskilyrða

Leifur Örn segir þá hafa stefnt á Everest í mörg ár og er ánægður með að settu marki sé náð. Hann segir ferðalagið þó hafa verið lengra en búist var við, þar sem veðurskilyrði hafa um nokkurt skeið verið óhagstæð til þess að gera atlögu að toppi fjallsins.

„Það kom fellibylur inn á Indlandshaf, sem að olli mjög vondu veðri í miðju tímabilinu,“ segir Leifur, en veðuraðstæðurnar ollu því að sjerparnir gátu ekki fest fasta línu upp á topp fjallsins á áætluðum tíma. Þegar línan var svo komin upp náðu örfáir hópar að fara upp á topp strax í kjölfarið, en síðan þá hafa veðurskilyrðin verið óhagstæð.

Mynd sem Leifur birti á Instagram 29. apríl síðastliðinn af …
Mynd sem Leifur birti á Instagram 29. apríl síðastliðinn af förinni í gegn um Khumbu-ísfallið. Ljósmynd/Leifur Örn Svavarsson

„Svo kemur bara enginn veðurgluggi fyrr en núna 22. og 23. maí, sem var mjög seint,“ segir Leifur og bætir við að þessir tveir dagar hafi sennilega verið þeir annasömustu á fjallinu fyrr og síðar.

„Þú þarft að fara aftur til 2012 til þess að finna dag þar sem yfir 200 manns gengu á tindinn, en þessa tvo daga fór fjöldinn vel yfir það og það mun örugglega taka einhvern tíma að taka það saman hversu margir fóru raunverulega á tindinn þessa tvo daga,“ segir Leifur.

Hann segir eðlilegt að svona margir hafi lagt í hann á sama tíma núna þegar að allir hafi tæknina til þess að fylgjast með veðurspám og meta hvenær best sér að fara – og að allt hafi þetta gengið, þrátt fyrir margmennið.

„Þetta er fólk sem er búið að leggja mjög mikið undir, fjárfestingu og líkamsæfingu og fleira, og svo búið að vera þarna í tvo mánuði í að láta líkamann aðlagast hæðinni. Auðvitað vilja allir fá dagana þar sem aðstæður eru bestar,“ segir Leifur, en frostið við topp fjallsins er tæpar 30 gráður.

Þessa mynd tók Leifur Örn á páskadag í grunnbúðum Everest.
Þessa mynd tók Leifur Örn á páskadag í grunnbúðum Everest. Ljósmynd/Leifur Örn Svavarsson

„Ef það er mikill vindur í svona kulda þá eru þetta óbærilegar aðstæður,“ bætir hann við og segir jafnframt að hann sé hugsi yfir hálfgerðri „gildru“ sem sé í veðurspám morgundagsins, en þá á vind að lægja í skamman tíma, en þó nógu langan til þess að einhverjir gætu talið sig geta náð toppnum, sem gæti reynst hættulegt.

Enginn vill fara í hættulegri aðstæðum

Leifur Örn leynir því ekki að fjöldinn hafi aðeins dregið úr upplifuninni, en hann og Lýður lögðu mjög snemma af stað, voru komnir á toppinn við birtingu og losnuðu því að miklu leyti við biðir og raðir við topp fjallsins.

„Svona fjallganga er gríðarlega erfið og það óskar enginn þess að fá þessa upplifun, eins og við sem erum Íslendingar og vanir því að vera á fjöllum bara í friði, að lenda í því að það séu svona margir að fara á tindinn á sama degi, en svona er þetta bara. Og þetta gekk bara alveg upp. En þetta skemmir náttúrlega dálítið upplifunina fyrir manni, að það séu svona margir að fara á sama tíma.

En það er skiljanlegt, ekki vill maður sjálfur breyta til og fara í hættulegri aðstæðum til þess að vera með færra fólki, heldur vill maður frekar fara í góðum aðstæðum þó að maður lendi í að vera með svona mörgum,“ segir Leifur.

mbl.is

Bloggað um fréttina