Þurfa að bíða í allt að sjö mánuði

Fleiri starfsmenn þarf til að vinna að fjölskyldumálum.
Fleiri starfsmenn þarf til að vinna að fjölskyldumálum. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Þetta er alvarleg staða. Það er ekki hægt að láta börn og foreldra bíða. Þetta á bara að vera í lagi,” segir Eyrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs hjá sýslumanni höfuðborgarsvæðisins, um langa bið eftir meðferð á fjölskyldumálum hjá embættinu.

Í kringum sjö mánaða bið er á afgreiðslu mála sem eru flóknari þar sem fleiri þurfa að koma að þeim t.d. sérfræðingar. Einfaldari og styttri mál eru afgreidd jafnóðum. Málum þarf að  forgangsraða. 

Dagsektarmál, erindi þar sem umgengni liggur niðri og nauðungarvistunarmál eru dæmi um mál sem eru tekin til umfjöllunar um leið og þau berast. 

Vantar starfsfólk

Ástæðan fyrir þessum hægagangi er fjöldi mála og mannekla. „Okkur vantar starfsfólk. Fjárhagurinn hefur verið erfiður sem hefur leitt til þess að við erum ekki með nógu marga starfsmenn til að sinna þessum málum. Þetta er erfitt og óboðlegt fyrir þá sem þurfa að bíða út af mikilvægum hagsmunamálum,“ segir Eyrún.

Málið er til skoðunar hjá dómsmálaráðuneytinu. Þar er unnið að því að leita úrræða, að sögn  Eyrúnar. 

Listinn aldrei jafn langur

Eyrún segir lengd á afgreiðslu á fjölskyldumálum hafi aldrei verið jafn langur eins og nú. Þess má geta að hún hefur starfað hjá embættinu í áratuga skeið. Hún segir hluta skýringanna vera meðal annars að eftir sameiningu sýslumannsembætta 1. janúar 2015 hafi afgreiðsla á málum tekið lengri tíma.

Hún vísar í skýrslu ríkisendurskoðunar um samanburð á embættum sýslumanns. Þar komi fram að sameiningin hafi ekki verið nægilega vel undirbúin og að hún hafi verið kostnaðarsöm.

„Ég er bjartsýn og trúi því ekki að þetta verði látið vera svona. Þetta er mikilvæg og dýrmæt þjónusta,“ segir Eyrún spurð hvort hún telji breytingar í nánd. 

Á vefsíðu Sýslumanns er hægt að sjá nánar um stöðu afgreiðslu fjölskyldumála

mbl.is