Tengjast ekki Landsvirkjun

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segist ekki vera í samstarfi við …
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segist ekki vera í samstarfi við Atlantic Superconnection. mbl.is/Golli

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir í samtali við mbl.is að Landsvirkjun sé í engu samstarfi við Atlantic Superconnection, og þekki ekki til þess verka að meira leyti en fjölmiðlar fjalla um. Þá sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Alþingi í dag að enginn sæstrengur yrði lagður nema Alþingi Íslendinga kysi svo. 

Eins og greint var frá í morgun sagðist Edi Truell, stofnandi Atlantic Superconnection, í samtali við The Times að fjármögnun væri til reiðu og nú þyrfti einungis samþykki breskra stjórnvalda til að geta hafið vinnu við sæstreng og raforkuflutning milli Íslands og Bretlands.

Allir lögfræðingar sammála

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi nú rétt eftir klukkan 15.00 vissi fyrsta fyrirspurn að máli Edis Truells, þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokks, spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um málið. Katrín lagði áherslu á að „allir lögfræðingar væru sammála um það“ að af þriðja orkupakka yrði engin skylda um að heimila lagningu sæstrengs milli Íslands og annars EES-ríkis leidd. „Það er ekki svo að þau ákvæði sem snúast um þetta mál taki hér gildi nema slíkur sæstrengur verði hér lagður, og hann verður ekki lagður nema Alþingi Íslendinga kjósi svo,“ sagði Katrín við fyrirspurn Sigmundar. 

Katrín lagði áherslu á að enginn sæstrengur yrði lagður milli …
Katrín lagði áherslu á að enginn sæstrengur yrði lagður milli Íslands og annars EES-ríkis nema Alþingi kysi svo. Haraldur Jónasson/Hari

Ekki á vegum iðnaðarráðuneytis

Í samtali við Morgunblaðið í nóvember sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, að ráðuneyti hennar hefði ekki átt frumkvæði að neinum fundum með fyrirtækinu, og hefði hvorki lýst afstöðu sinni til sæstrengs né til tiltekinna verkefna eða hugmynda. Þá sagði í fréttatilkynningu frá sama ráðuneyti, sem birt var sama dag, að athugun á Ice-Link sæstrengsverkefninu væri á vegum Landsnets og Landsvirkjunar. Atlantic SuperConnection ætti enga aðild að því verkefni.

Eins og áður segir er engin tenging milli Atlantic Superconnection og Landsvirkjunar. 

Rafmagnsstrengur lagður í sjó. Truell segist einungis þurfa samþykki breskra …
Rafmagnsstrengur lagður í sjó. Truell segist einungis þurfa samþykki breskra stjórnvalda til að geta hafið lagningu strengs síns. mbl.is/AFP
mbl.is