Gæsluvarðhald framlengt yfir Gunnari

Héraðsdóm­ur Aust­ur-Finn­merk­ur í Vadsø. Gæsluvarðhaldsúrskurður yfir Gunnari Jóhanni Gunnarssyni hefur …
Héraðsdóm­ur Aust­ur-Finn­merk­ur í Vadsø. Gæsluvarðhaldsúrskurður yfir Gunnari Jóhanni Gunnarssyni hefur verið framlengdur til 17. júní. Ljósmynd/Andrea Dahl/iFinnmark

Gæsluvarðhald hefur verið framlengt yfir Gunnari Jóhanni Gunnarssyni, sem grunaður er um að hafa orðið hálfbróður sínum Gísla Þór Þórarinssyni að bana. Gunnar hafði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 27. maí og hefur það nú verið framlengt til 17. júlí samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Finnmörku.

Gunn­ar er grunaður um að hafa skotið Gísla Þór á heimili hans í Mehamn aðfaranótt 27. apríl. Segir lögregla Gunnar samþykkan gæsluvarðhaldsúrskurðinum en hann hefur nú skipt um lögfræðing og hefur Bjørn Andre Gulstad  hjá lögfræðistofunni  Meling AS i Stavanger tekið við af Vi­dar Zahl Arntzen.

Fram kemur í yfirlýsingu lögreglu að mikil vinna hafi þegar verið unnin í tengslum við rannsóknina og m.a. hafi lögregla yfirheyrt vitni á Íslandi og í Noregi. „Rannsóknin hefur verið víðtæk til að að henda reiður á röð atburða og aðdraganda þeirra,“ segir í tilkynningunni.

Nokkuð hefur hins vegar að sögn lögreglu verið um að villandi upplýsingar séu birtar í fjölmiðlum og kveðst lögregla vilja leiðrétta slíkt. Rangar upplýsingar geti haft áhrif á möguleg vitni og gert starf lögreglu erfiðara.

Gat ekki brotið gegn nálgunarbanninu

Er meint brot Gunnars á nálgunarbanni meðal þess sem lögregla vill leiðrétta. Fullyrt hefur verið að Gunnar hafi brotið gegn banninu nokkrum dögum eftir að sá úrskurður féll, en að sögn lögreglu er þetta ekki rétt þar sem Gunnar hafi ekki dvalið í Gamsvik frá því bannið féll þann 17. apríl fyrr en föstudaginn 26. apríl. Þetta hefur lögreglan fengið staðfest frá stofnun sem  Gunnar dvaldi á þessa daga og er utan sveitarfélagsins. „Hann gat því ekki hafa heimsótt þau í Mehamn og lögreglu var kunnugt um hvar hann var á þessum tíma,“ segir í tilkynningunni.  

Gunnar er þó sagður hafa einu sinni hringt í fyrrverandi eiginkonu sína er hann dvaldi enn á stofnuninni. Það hafi verið brot á nálgunarbanninu og hafi lögregla í kjölfarið rætt við hann um brotið föstudaginn 26. apríl. Þá hafi Gunnar sagt að hann hefði fullan skilning á nálgunarbanninu og að hann hefði engan hug á að brjóta gegn því. Hann hafi jafnvel lýst yfir vilja til að mæta á lögreglustöðina strax og hún opnaði á mánudagsmorguninn til að fá nánari útskýringu á því svæði sem bannið tæki til.

Kveðst lögreglan í Finnmörku vera komin með nokkuð góða yfirsýn yfir málið m.a. með upplýsingum úr símum, rafrænum sporum, rannsókn á vettvangi og vitnalýsingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert