Hallgrímskirkjuturn opnar eftir lyftuskipti

Hallgrímskirkjuturn hefur verið opnaður á ný.
Hallgrímskirkjuturn hefur verið opnaður á ný. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hallgrímskirkjuturn opnaði á ný klukkan 10 í morgun, en turninn hefur verið lokaður frá 23. apríl vegna lyftuskipta. „Þessi er hraðvirkari, hún fer 60% hraðar upp og niður,“ segir Sig­ríður Hjálm­ars­dóttir fram­kvæmda­stjóri Hall­gríms­kirkju um nýju lyftuna í samtali við mbl.is. Sú gamla fór einn metra á sek­úndu á meðan sú nýja mun ferðast 1,6 metra á sek­úndu. Þá er sú nýja líka með meiri lofthæð.

Hallgrímskirkja og turn hennar eru vinsælir viðkomustaðir hjá ferðamönnum í borginni. „Á síðasta ári held ég að það hafi farið um 300.000 manns upp í turn,“ segir Sigríður.  Allt að þúsund manns fara upp í turn­inn á degi hverj­um á þess­um árs­tíma og því hafa margir komið að lokuðum dyrum undanfarnar vikur. „Það fer misvel í fólk, en þetta er náttúrulega mikilvægt öryggisatriði,“ bætir Sigríður við.

Gamla lyftan var orðin 50 ára og því var þörf á endurnýjun. Sigríður segir nýju lyftuna munu líka gegna hlutverki öryggislyftu þegar búið verður að ganga frá öllu. „Þá verður hægt að nota hana í neyðartilvikum ef í það fer. Við tökum öryggismálin að sjálfsögðu alvarlega þegar við erum með svona mikið af fólki og þá er mjög mikilvægt að þetta sé í lagi.“

mbl.is