Skoða hvernig fjarlægja skuli hrefnuna

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vinnur nú að því í samvinnu við Umhverfisstofnun að finna leið til þess að koma illa lyktandi hvalhræi úr fjörunni við Eiðsgranda til móts við Rekagranda í Vesturbæ Reykjavíkur. Um hræ af hrefnu er að ræða. 

Lögregla fékk fyrst tilkynningu um hvalrekann kl. 12:53 í dag, samkvæmt Guðbrandi Sigurðssyni, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en þá sást hræið fljóta í sjónum um 300 metra frá landi við Gróttu á Seltjarnarnesi.

Hræið rak síðan á fjörur Reykvíkinga, í orðanna bókstaflegu merkingu, og því er það á ábyrgð borgarinnar sem landeiganda að koma því í burtu. Stækan fnyk liggur af hræinu, samkvæmt þeim sem hafa verið á ferðinni þar í kring.

Unnið samkvæmt verkferlum UST

Rósa Magnúsdóttir, deildarstjóri umhverfiseftirlits hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, segir í samtali við mbl.is að verið sé að skoða hvernig megi koma hræinu í burtu. Hvort hræið verði dregið úr fjörunni við Eiðsgranda eða fargað með öðrum hætti gat hún ekki sagt til um, á þessum tímapunkti.

Hrefnan sem rak á land við Seltjarnarnes hefur vakið mikla …
Hrefnan sem rak á land við Seltjarnarnes hefur vakið mikla athygli. mbl.is/Hallur Már

Umhverfisstofnun hefur ákveðna verkferla um hvernig bregðast skuli við í tilvikum sem þessum og segir Rósa að þeim verði fylgt til hins ýtrasta.

Á Facebook-síðu Reykjavíkurborgar kemur fram að frekari upplýsingar um hvernig hræið verði fjarlægt muni liggja fyrir á morgun og að ekki sé talið að hætta stafi af hræinu.

Lögregla fékk tilkynningu um skútu á hvolfi

Guðbrandur varðstjóri segir í samtali við blaðamann að ekki sé loku fyrir það skotið að hvalurinn sem nú liggur í fjörunni við Eiðsgranda tengist máli sem kom upp í gær.

Þá barst tilkynning um að skúta hefði sést á hvolfi úti á Hvalfirði og var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út í snarhasti til þess að athuga málið.

Sem betur fer reyndist þar þó einungis vera dauður hvalur með hvítan maga á ferð, mögulega sá sami og rak á fjörur Reykvíkinga í dag og liggur nú í fjörunni við Eiðsgranda og reynir vafalítið á þefskyn íbúa í nágrenninu.

Forvitnir kíkja á hræið.
Forvitnir kíkja á hræið. mbl.is/Hallur Már
mbl.is