Vaxandi kókaínneysla á Íslandi

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert

Skipulögð brotastarfsemi á Íslandi er hvað greinilegust í innflutningi, framleiðslu, sölu og dreifingu fíkniefna. Markaðurinn veltir miklum fjármunum og starfsemin er þaulskipulögð hjá sumum þeirra afbrotahópa sem nærri koma. Upplýsingar frá því í janúar gefa til kynna að neysla kókaíns fari vaxandi á Íslandi.

Þetta kemur fram í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi.

Upplýsingar greiningardeildar eru á þann veg að skipulögðum hópum hafi fjölgað á síðustu árum. Að meðaltali kemur upp eitt fíkniefnamál í hverjum mánuði þar sem umfang málsins og fjöldi þeirra sem við sögu koma eru vísbendingar um skipulagða brotastarfsemi. Almennt gildir að hópar samanstanda ýmist af íslenskum eða erlendum ríkisborgurum þótt vissulega þekkist samstarf aðkomu- og heimamanna.

Aukin umsvif erlendra glæpahópa

Tiltækar upplýsingar benda til þess að umsvif erlendra glæpahópa fari vaxandi á sviði fíkniefnaviðskipta. Með hugtakinu „erlendur glæpahópur“ er átt við hóp sem samanstendur af einstaklingum sem flust hafa til Íslands eða koma tímabundið til Íslands til að skipuleggja og/eða stunda afbrot.

Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu tengdust á annað hundrað manns fíkniefnamálum á árunum 2015-2017 sem flokkast undir skipulagða brotastarfsemi, innflutning, framleiðslu og sölu. Íslenskir karlmenn eru meirihluti gerenda en hlutur erlendra ríkisborgara er umtalsverður. Í rúmlega þriðjungi mála eru sakborningar útlendingar.

mbl.is/Eggert

Lækkandi verð og aukinn hreinleiki

Upplýsingar frá því í janúar síðastliðnum gefa til kynna að neysla kókaíns fari vaxandi á Íslandi. Verð á efninu lækkaði árið 2018, um allt að fjórðung frá árum þar á undan. Kann það af einhverju leyti að skýrast af auknu framboði á heimsvísu og lækkandi verði. Greiningum kókaínfíknar fjölgar hratt hjá íslenskum meðferðaraðilum, að því er segir í skýrslunni.

Vitað er að hópur erlendra afbrotamanna er stórtækur á sviði kókaínsölu á Íslandi og að efnið sem hann selur er sérlega hreint og þar með öflugt. Aukinn hreinleiki efna á markaði felur í sér hættu. Neytendur fá sterkari efni en þeir eru vanir og taka því inn of mikið magn. Samkvæmt upplýsingum greiningardeildar ríkislögreglustjóra látast tugir manna árlega af völdum fíkniefna hér á landi og sérfræðingar segja að „lífshættulegur kókaínfaraldur“ hafa riðið yfir á undanliðnum misserum.

Undirsátum foringja skipt reglulega út

Fyrrnefndur hópur afbrotamanna kemur að flestum birtingarmyndum skipulagðrar brotastarfsemi. Hann smyglar sterkum fíkniefnum inn í landið og rekur öflugt net sölumanna, stundar skipulögð vinnumarkaðsbrot, kemur að innflutningi á erlendum vændiskonum til landsins, fremur skattsvik og peningaþvætti. Í hóp þessum er undirsátum foringjanna „skipt út“ reglulega og upplýsingar eru fyrir hendi um að í einhverjum tilvikum séu „fótgönguliðar“ þessir ofurseldir vilja þeirra sem stjórna.

„Fótgönguliðar“ stunda margvíslega „svarta“ atvinnustarfsemi og virðist hluti ágóðans, hið minnsta, renna til foringjanna. Ljóst er að mikill fjöldi fólks kemur að þeirri skipulögðu brotastarfsemi sem hópur þessi heldur uppi á Íslandi.

Hlutverkin eru misjöfn og einhverjir kunna í raun að vera fórnarlömb. Rúmlega 100 manns hafa tengst þessum glæpahópi, að sögn greiningardeildar ríkislögreglustjóra og eru vísbendingar um að hann eflist. Að mati deildarinnar stendur hópurinn fyrir þaulskipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi og telst hann vaxandi ógn við einstaklinga og samfélag.

mbl.is