Eðlilegt að allt sé uppi á borðum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir sjálfsagt að fjármálaráðuneytið veiti upplýsingar um …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir sjálfsagt að fjármálaráðuneytið veiti upplýsingar um gamla kjararáð. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér finnst eðlilegt að opinberar nefndir haldi fundargerðir yfir sín störf,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um þann skort á upplýsingum sem hefur verið um ákvarðanir kjararáðs eftir að það var lagt niður. 

mbl.is hefur fjallað um að engar upplýsingar hafi fengist frá kjararáði né fjármálaráðuneytinu um það hvaða forstjórar ríkisstofnana fengu launahækkun í desember 2011.

„Ég kann ekki frekari skýringar á tilteknum málum en ég vænti þess að fjármálaráðuneytið sé að sjálfsögðu tilbúið til að veita upplýsingar um þau,“ segir Katrín. „Að sjálfsögðu er eðlilegt að svona starfsemi sé skráð í fundargerðir og að þar sé allt uppi á borðum,“ segir Katrín.

„Ég ætla ekki að segja að við hættum að rífast“

Hún segist þá vongóð um að nýtt fyrirkomulag, sem liggur fyrir þingi, eigi að skapa sátt í þessum málum. „Ég ætla ekki að segja að við hættum að rífast um það, ég ætla ekki að lofa því. En þetta er að minnsta kosti gerbreytt fyrirkomulag sem hefur verið tiltölulega mikil sátt um á Norðurlöndum,“ segir Katrín.

„Markmiðið okkar er fyrst og fremst gagnsæi, samræmi í launaákvörðunum og fyrirsjáanleiki,“ segir Katrín um frumvarp sem liggur fyrir þinginu. Það frumvarp á að verða eins konar staðgengill kjararáðs en mun þó ekki felast í ákvörðunum hóps um laun heldur árlegum útreikningum byggðum á meðallaunum ríkisstarfsmanna. Með þeim hætti eigi kjör æðstu embættismanna og kjörinna fulltrúa að vera ákvörðuð, nái frumvarpið fram að ganga.

Katrín segir að nýja fyrirkomulagið byggi á þeirri vinnu sem var unnin í aðdraganda þess að kjararáð var lagt niður. „Hvað varðar kjararáð er það morgunljóst að fyrirkomulagið hefur verið umdeilt lengi, það hefur verið kvartað undan skorti á gagnsæi og undan því að launahækkanir hafi komið í kippum og með óvæntum hætti, þannig að þegar við settumst við borðið með aðilum vinnumarkaðarins í byrjun árs 2018 var þetta eitt af því sem stóð upp úr, að þessu þyrfti að breyta,“ sagði Katrín.

Katrín segir þannig að fyrirhugaðar breytingar á tilhögun launa æðstu embættismanna og stjórnenda hjá ríkinu séu fyrstu breytingar þar að lútandi sem gerðar eru með aðkomu aðila vinnumarkaðarins. „Með þeim var alveg farið yfir þetta fyrirkomulag. Einnig var farið yfir fyrirkomulagið annars staðar á Norðurlöndunum. Niðurstaðan varð þetta frumvarp, sem liggur fyrir þinginu, sem gerir fyrirkomulagið gagnsærra.

Auk þess verði þeim fækkað sem heyra undir þessa launaákvörðun, sem verður háð útreikningi á meðallaunum ríkisstarfsmanna. Fleiri verði færðir undir kjara- og mannauðssýslu fjármálaráðuneytisins, eins og forstöðumenn ríkisstofnana. Nýja fyrirkomulagið muni eiga við æðstu embættismenn ríkisins svo og kjörna fulltrúa.

Frumvarpið er komið út úr nefndum og gæti verið tekið til umræðu á þessu þingi ef tími gæfist. „Við ræðum það ef við ræðum einhvern tímann eitthvað annað en orkupakkann,“ segir Katrín. Ekkert sé því til fyrirstöðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert