Leggja til frestun orkupakkans

Samfylkingin, Viðreisn, Píratar og Flokkur fólksins leggja til að færa …
Samfylkingin, Viðreisn, Píratar og Flokkur fólksins leggja til að færa orkupakkann aftast á málaskrá þingsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjórir stjórnarandstöðuflokkar leggja til að orkupakkinn verði færður aftast á dagskrá Alþingis til þess að hægt verði að afgreiða þau mál sem bíða afgreiðslu þingsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Samfylkingarinnar, Pírata, Viðreisnar og Flokks fólksins varðandi lausn á málþófi Miðflokksins.

Þá segir að málþóf þingmanna Miðflokksins „komið hefur í veg fyrir þinglega meðferð allra annarra mála,“ auk þess sem ríkisstjórnin er gagnrýnd fyrir að „mörg stór mál ríkisstjórnarinnar hafa komið allt of seint fram“. Jafnframt að beðið sé eftir nýrri fjármálastefnu og breyttri fjármálaáætlun.

„Mörg gríðarlega mikilvæg mál bíða afgreiðslu og vandséð hvenær þau fái þinglega meðferð,“ segja flokkarnir og fullyrða að „stjórnarmeirihlutanum hefur mistekist algjörlega að höggva á þennan hnút“.

Miklir hagsmunir almennings séu undir að mati flokkanna og „ótækt annað en að þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, fái tækifæri til að sinna þessum verkefnum í þágu kjósenda af fullum krafti. Því leggja eftirfarandi flokkar fram þá lausn að flokkarnir semji um afgreiðslu þeirra mála sem bíða og innleiðing þriðja orkupakkans verði færð aftast á dagskrá þessa þings.“

Ófremdarástand

Umræður um orkupakkann hafa staðið í um 132 klukkustundir og hafa þingmenn Miðflokksins talað í um 110 klukkustundir. Andsvör hafa verið 2.675 og tekið 85 klukkustundir.

Þetta kom fram í máli Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, í morgun og sagði hann að „það linnulausa málþóf sem forseti getur nú ekki lengur annað en kallað sínu rétta nafni sem hér hefur verið hefur skapað ófremdarástand hér í þinginu“. 

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. mbl.is/Hari
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert