Silfra ekki komin að þolmörkum enn

Skýrsluhöfundar leggja nokkra áherslu á það að lausna verði leitað …
Skýrsluhöfundar leggja nokkra áherslu á það að lausna verði leitað til þess að minnka biðraðamyndun við Silfru sjálfa, til dæmis með því að færa aðgangsstýringu fjær gjánni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki eru augljós merki um að þolmörkum hafi verið náð varðandi fjölda gesta sem stunda köfun og yfirborðsköfun í Silfru í Þingvallaþjóðgarði. Jafnvel er mögulegt að fjölga gestum hóflega, þannig að þeir verði 76 þúsund á ári að hámarki miðað við óbreytta aðgangsstýringu, samkvæmt þolmarkagreiningu frá verkfræðistofunni Eflu, sem unnin var fyrir þjóðgarðinn og kynnt hagsmunaaðilum á fundi nú síðdegis.

„Það er jákvætt að þessi skýrsla er komin og hún er mjög skýr leiðbeining til okkar um það hvert við eigum að stefna með stjórnunina í Silfru,“ segir Einar Á. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, í samtali við mbl.is. Hann segir niðurstöðurnar sýna að fjöldi ferðaþjónustuaðila sem starfa í Silfru geti ekki haldið áfram að vaxa, þrátt fyrir að skýrslan sýni að þolmörkum hafi sé ekki náð.

„Skýrslan sýnir mjög vel að Silfra er hratt að nálgast þolmörk. Það er þjóðgarðsins að ákveða fjölda gesta í Silfru og er skýrslan eitt af þeim verkfærum sem nýtist til að ákvarða og stjórna umferð til framtíðar um Silfru,“ segir Einar.

Gestum fjölgað ört undanfarin ár

Gestum sem stunda köfun eða yfirborðsköfun í Silfru hefur fjölgað mikið undanfarin ár, úr rúmlega 19 þúsund manns árið 2014 og upp í 62 þúsund manns árið 2018. Tölur fyrstu mánaða þessa árs benda til 5-10% fjölgunar frá því í fyrra og því má búast við því sé ekki langt þar til fjöldi gesta á ársgrundvelli verði orðinn 76 þúsund.

Þó segja skýrsluhöfundar að hafa verði í huga þá óvissu sem er varðandi þróun í fjölda ferðamanna sem hingað til lands koma. Sjö ferðaþjónustufyrirtæki bjóða upp á köfun og yfirborðsköfun í gjánni.

Ekki samband á milli fleiri gesta og tíðni slysa

Nokkur alvarleg slys hafa orðið í tengslum við köfun í Silfru á undanförnum árum, en alls eru banaslysin á þessum vinsæla köfunarstað orðin fimm talsins síðan árið 2010. Þessi slys og fleiri eru ein meginástæðan fyrir því að talin hefur verið þörf á að skoða mögulega stjórnun á aðgengi að gjánni.

Fram kemur í skýrslunni að ekki sé sjáanlegt samhengi á milli fjölgunar gesta og tíðni slysa, en gögnin sem skýrsluhöfundar studdust við sýndu þó að fleiri slys eða önnur skráð atvik eigi sér stað að vetri en að sumri, til dæmis þegar að biðraðir myndist við Silfru er veðuraðstæður eru slæmar.

„Öryggisþátturinn er mikilvægur allt árið en hann er mikilvægastur yfir veturinn,“ segir Einar og bætir við: „Þá er ekki jafn mikið birtustig. Á mjög fáum klukkustundum á hverjum degi í desember eru í raun jafn margir að reyna að troðast ofan í Silfru og yfir sumarið. Við settum upp tilraunaverkefni í vetur þar sem það voru tveir starfsmenn í að miðla fólki ofan í Silfru og það gaf ágæta raun.“

Leggja skýrsluhöfundar einnig til að leitað verði að framtíðarlausn til þess að stýra aðgengi að gjánni, sem hafi það að markmiði að minnka biðraðamyndun og draga úr áhrif starfseminnar á ásýnd þjóðgarðsins.

Fjöldi gesta í Silfru hefur aukist mikið á undanförnum árum. …
Fjöldi gesta í Silfru hefur aukist mikið á undanförnum árum. Hlutfall kafara dróst þó saman árið 2017, eftir að öryggisreglur voru hertar í kjölfar banaslyss í gjánni. Graf/Efla verkfræðistofa

„Felur það mögulega í sér að færa aðstöðuna fjær Silfru sjálfri, t.d. við þjónustumiðstöð innan þjóðgarðsins eða jafnvel utan við þjóðgarðinn. Ferja mætti gesti með vistvænum samgöngumáta að Silfru og stýra þannig aðgengi,“ segir í skýrslunni.

„Það er eitthvað sem hefur legið undir og yfir alla tíð,“ segir Einar og bætir við að það sé af þeim sökum sem aldrei hafi verið byggð upp föst aðstaða á athafnasvæði köfunarfyrirtækjanna við Silfru.

Verður að tryggja aðgengi viðbragðsaðila

Skýrsluhöfundar segja einnig að setja þurfi reglur um það við hvaða veðurskilyrði hætta skuli að hleypa gestum ofan í Silfru, „með því að horfa t.d. til viðvarana Veðurstofu Íslands eða annarra veðurfarsupplýsinga.“ Einar tekur undir þetta, en auk þess segir í skýrslunni að hafa þurfi í huga aðgengi viðbragðsaðila að Silfru.

„Ef lokað er fyrir umferð að Þingvöllum eða ekki eru aðstæður sem bjóða upp á aðstoð úr lofti er ekki skynsamlegt að leyfa starfsemi í Silfru. Í sumum tilfellum geta veðuraðstæður við Silfru verið þannig að mögulegt er að stunda þar köfun þrátt fyrir að aðgengi viðbragðsaðila að svæðinu sé erfitt eða ómögulegt. Við slík skilyrði er ekki skynsamlegt að leyfa ferðir í Silfru,“ segir í skýrslunni.

Einar segir að það hafi þó ekki verið svo að þeir ferðaþjónustuaðilar sem selja ferðir í Silfru séu að tefla öryggi viðskiptavina sínum í tvísýnu ef veður er vont. 

„Þau taka þetta mjög til sín og þegar það er ekki gott veður þá slaufa þau sínum ferðum. Þau vinna samkvæmt sínum eigin öryggisskilyrðum,“ segir Einar.

Miðað við útreikninga Eflu ber Silfra yfir 76.000 gesti árlega …
Miðað við útreikninga Eflu ber Silfra yfir 76.000 gesti árlega miðað við óbreytta aðgangsstýringu, en í fyrra voru þeir rúmlega 62 þúsund. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gögn skortir til að meta áhrif á lífríki

Skýrsluhöfundar segja að auknum fjölda gesta hafi fylgt aukið álag á náttúru, ásýnd og innviði svæðisins. Þegar hefur verið gripið til aðgerða til þess að bregðast við þeirri þróun, en meðal annars hafa innviðir verið styrktir og eftirlit aukið.

Það liggja þó ekki fyrir nægileg gögn, til þess að hægt sé að „meta með óyggjandi hætti hvort að starfsemin hafi umtalsverð neikvæð áhrif á umhverfið í og við Silfru til lengri tíma litið.“ Segja skýrsluhöfundar að vegna sérstöðunnar sem svæðið hefur sem þjóðgarður sé „afar mikilvægt“ að slík áhrif verði vöktuð til framtíðar.

mbl.is