Stjórnendur hætti að ritskoða sig

Hjálmar Gíslason frumkvöðull gagnrýndi einangrunarsinna á morgunfundi Viðskiptaráðs í dag. …
Hjálmar Gíslason frumkvöðull gagnrýndi einangrunarsinna á morgunfundi Viðskiptaráðs í dag. Við hlið hans á myndinni er Edda Hermannsdóttir, markaðsstjóri Íslandsbanka, sem einnig flutti erindi á fundinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjálmar Gíslason frumkvöðull er kominn með 4,5 milljónir Bandaríkjadala af fjárfestingu, mest erlendri, inn í nýtt sprotafyrirtæki sem var stofnað fyrir níu mánuðum. Það heitir Grid og mun að líkindum setja vöru sína á markað í lok árs. Varan er forrit sem setur fram gögn úr töflureiknum með nýstárlegum hætti.

Í erindi sínu á fundi um samkeppnishæfni Íslands í morgun sagði Hjálmar reynslusögu sína af því að koma með svona mikið fjármagn inn í íslenskar aðstæður. Hann fjármagnaði stofnun fyrirtækisins í fjármögnunarlotum. „Þegar peningurinn var kominn í kassann var eitt af því fyrsta sem við þurftum að velta fyrir okkur hvernig við ætlum að geyma hann. Þannig að við förum í bankann,“ byrjaði Hjálmar.

„Þar erum við, lítið sprotafyrirtæki sem er búið að vera starfandi í sex vikur, að ræða um loðnukvótann. Við erum að ræða um hvernig tveimur flugfélögum á eftir að reiða af. Við erum að ræða hvernig túrismanum á Íslandi á eftir að reiða af,“ sagði Hjálmar.

„Og ég get alveg lofað ykkur því að ekkert annað annað sex vikna gamalt sprotafyrirtæki í heiminum er á fundi með bankanum sínum að ræða þessa hluti,“ sagði Hjálmar og uppskar hlátur viðstaddra. „Ástæðan fyrir þessu er auðvitað gjaldmiðillinn okkar,“ sagði hann.

Hjálmar sagði að fundurinn við bankann hefði endað með þessum skilaboðum: „Það er ekkert hægt að gera plön í erlendri mynt á Íslandi.“ Frá því að Hjálmar byrjaði með Grid í september er munurinn á hæsta og lægsta gengi krónunnar gagnvart dollara 15%. Á meðan hæsti útgjaldaliður fyrirtækisins eru laun í íslenskum krónum, kemur fjármagnið í dollurum.

Hjálmar stofnaði á sínum tíma Datamarket og seldi það síðar erlendum aðilum. Nú er hann í óðaönn að koma upp Grid. Hjálmar keypti árið 2014 hlut í Kjarnanum ehf. og er stærsti hluthafi hans, með um fimmtungshlut. Hann er jafnframt stjórnarformaður félagsins.

„Mig grunar að allir hér séu sammála mér í þessu“

Hjálmar sagði íslensku krónuna útópískt fyrirkomulag. „Stöðugur gjaldmiðill er að búa við það að hafa tekjur og gjöld í sama gjaldmiðli og við búum við það á Íslandi. Það væri frábært fyrir Ísland í fullkomnum heimi að vera með eigin gjaldmiðil en við höfum bara ekki tíma til að bíða eftir því. Ég held að við komumst aldrei á þann stað, sem er oft lýst í umræðunni, að við munum ná fullkominni hagstjórn að við verðum betur sett með eigin gjaldmiðli en sameiginlegum,“ sagði hann.

Síðar hélt hann áfram á þeim nótum og sagði að orðræðan gegn EES væri óheppileg. „Það er ákveðinn hópur sem annaðhvort trúir því í alvörunni að hagsmunir Íslands liggi fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið eða trúir að það sé líklegt til vinsælda að halda því fram. Ég veit ekki alveg hvort er verra,“ sagði Hjálmar og uppskar hlátur.

„Það er ákveðinn hópur sem annaðhvort trúir því í alvörunni …
„Það er ákveðinn hópur sem annaðhvort trúir því í alvörunni að hagsmunir Íslands liggi fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið eða trúir að það sé líklegt til vinsælda að halda því fram. Ég veit ekki alveg hvort er verra,“ sagði Hjálmar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjálmar sagði að fyrirtæki og aðilar í atvinnulífinu þurfi að hætta að ritskoða sjálfa sig þegar kemur að Evrópumálum. „Mig grunar að allir hér séu sammála mér í þessu. Við þurfum að hætta að sjálfsritskoða okkur svona mikið,“ sagði hann.  

„Það þarf sterkar raddir sem tala fyrir alþjóðlegu samstarfi og því hvernig við ætlum að haga okkur sem þjóð meðal þjóða. Við megum ekki láta raddirnar sem tala öðruvísi vera þær einu sem heyrast,“ sagði Hjálmar.

Vandamál verða ekki leyst í einangrun

Hann hvatti fólk til að láta í sér heyra í þeim efnum. „Það hefur verið hræðsla meðal stjórnenda að segja það sem þeim finnst vegna þess að þeir óttast að það geti styggt einhvern, til dæmis einhvern sem einhvern tímann gæti komist að sem ráðherra eða eitthvað slíkt. Við megum þetta ekki, því að á meðan raddirnar heyrast og málstaðurinn er góður, hann er okkar, þá þurfum við bara að tala fyrir honum,“ sagði Hjálmar.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnu-, nýsköpunar-, dóms- og ferðamálaráðherra, var …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnu-, nýsköpunar-, dóms- og ferðamálaráðherra, var viðstödd morgunfundinn og hélt erindi. Með henni á myndinni er Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjálmar sagði að stærstu áskoranir mannlegs samfélags yrðu ekki leystar í einangrun. Hann nefndi loftslagsmál, jafnrétti og misskiptingu auðs. „Þessi vandamál verða ekki leyst af hverri þjóð fyrir sig, heldur aðeins í stærra samstarfi. Ég held að þróunin verði sú að samböndum heimsins eigi eftir að fækka og þau eiga eftir að verða stærri,“ sagði hann.

Þannig telur hann að miðstýrt vald eigi eftir að færast frá þjóðríkjum yfir til alþjóðlegra sambanda en á sama tíma muni minni einingar taka við hluta valdsins, eins og sveitarstjórnir og borgir. Þannig færist valdið nær íbúum en stórar ákvarðanir verði teknar í sameiningu alþjóðlega.

„Er hægt að panta frá Amazon?“

„Algengasta spurningin sem CCP fær þegar þeir ráða inn erlenda sérfræðinga er: Er hægt að panta frá Amazon?“ sagði Hjálmar. Hann benti á að svona þarfir væru algengar á meðal erlendra sérfræðinga sem koma til landsins en að af óljósum ástæðum væri slíkt óaðgengilegt á Íslandi.

„Þetta er eitthvað sem fólk kynnist þegar það býr úti, það kynnist Uber, það kynnist alls konar hlutum, sem við höfum einhverra hluta vegna ekki leyft að koma hingað til okkar,“ sagði Hjálmar. Íslendingar leyfðu þannig nútímalegum viðskiptaháttum ekki að berast til Íslands og það fæli fólk frá.

Þetta spilar að sögn Hjálmars inn í þá staðreynd að mjög erfitt er að fá erlenda sérfræðinga annars staðar frá en úr Evrópu til að flytja til Íslands. Næstum ómögulegt. „Það er mörgum sem finnst spennandi að búa á Íslandi. En ef þú ert ekki einhleypur, barnlaus og rosalega þolinmóður sérfræðingur, þá ertu ekki að fara að flytja til Íslands,“ sagði Hjálmar.

Hann sagði að hindranirnar væru samt einfaldir þættir til að breyta. „Makar fá til dæmis ekki sjálfkrafa atvinnuleyfi þegar þeir koma til landsins. Við bjóðum ekki upp á sérstaklega góða skóla fyrir börn sem tala ekki íslensku. Og það getur tekið sérfræðing 6 mánuði að fá leyfi til að koma til landsins að vinna. Bandaríkjamaður sem er með 2 vikur í uppsagnarfrest er ekki að fara að bíða þann tíma,“ sagði Hjálmar loks.

mbl.is