Svæfi umræðu að næturlagi

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, sakaði meirihlutann um tilraunir til …
Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, sakaði meirihlutann um tilraunir til að svæfa umræðuna um orkupakkann. mbl.is/​Hari

Þingmönnum tókst ekki að komast undan því að ræða orkupakkamálið á eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld. Sagði Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðfokksins, að meirihlutinn hafi ekki „getað útskýrt fyrir þjóðinni hverjar verða afleiðingar þess ef þessir fyrirvarar standast ekki.“

Sakaði hann meirihlutann um að reyna að svæfa málið.

„Í stað þess að upplýsa almenning um margar og flóknar hliðar þessa máls, er umræðunni stýrt þannig að hún fari helst fram að næturlagi og hæstvirtur forseti og þeir sem fara með dagskrárvaldið slá nú bæði sín eigin met og annarra í lengd funda á Alþingi í þeim tilgangi, að því er virðist, að svæfa umræðuna með áberandi samverknaði fjölmiðla.“

„Ríkisstjórnin fæst heldur ekki – í samhengi við þetta mál – að ræða fjórða orkupakkann sem er fullsmíðaður upp á þúsund blaðsíður,“ sagði Karl Gauti og bætti við að „sá pakki hefur ekki verið kynntur þingmönnum á meðan sá þriðji liggur hér fyrir til samþykktar.“

Lýsti þingmaðurinn áhyggjum af afnámi takmarkanna á innflutninga á hráu kjöti sem getur leitt til aukna hættu fyrir heilsu manna og dýra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert