Funduðu um hvarf Jóns Þrastar

Lögregluyfurvöld á Íslandi vinna náið með írsku lögreglunni við rannsókn …
Lögregluyfurvöld á Íslandi vinna náið með írsku lögreglunni við rannsókn hvarfs Jóns Þrastar Jónssonar. Tæplega fjórir mánuðir eru síðan síðast sást til Jóns Þrastar. Skjáskot

Fulltrúar rannsóknardeildar lögreglunnar funduðu með írskum lögregluyfirvöldum í Dublin í vikunni vegna hvarfs Jóns Þrastar Jónssonar. Lítil tíðindi eru af rannsókninni en Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar, segir í samtali við mbl.is málið verði áfram unnið í samvinnu við lögregluna á Írlandi.

„Við höfum átt gott samstarf við írsku lögregluna og það er ljóst að írsk yfirvöld hafa lagt sig vel fram við rannsóknina og þeirra aðgerðir,“ segir Karl Steinar.

Ekkert hefur spurst til Jóns Þrastar síðan 9. febrúar. Hann var þá staddur í Whitehall-hverf­inu í Dublin. Jón Þröst­ur lenti í borg­inni kvöldið áður en hann hvarf en hann ætlaði að taka þátt í pókermóti sem hófst á miðviku­deg­in­um í vik­unni á eft­ir.

Litlar sem engar ábendingar

Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns Þrastar, segir stöðuna óbreytta en að fjölskyldan meti það mikils að hafa lögregluyfirvöld hérna heima innan handar. Hann segir samskipti við írsku lögregluna hafa haldist góð frá því að málið kom upp.

Interpol lýsti eftir Jóni Þresti um miðjan mars og írska lögreglan ítrekaði beiðni sína um aðstoð frá almenningi við leitina að Jóni Þresti í byrjun apríl. Litlar sem engar ábendingar hafa borist frá því að björg­un­ar­sveit kembdi leit­ar­svæði í borg­inni í byrj­un mars og ábend­ing barst um að Jón Þröst­ur hefði mögu­lega ferðast með leigu­bíl.

Tæplega fjórir mánuðir eru nú liðnir frá því að síðast sást til Jóns Þrastar. Fjöl­skylda hans hef­ur verið með ann­an fót­inn á Írlandi frá því að leit­in að hon­um hófst en aðeins hef­ur dregið úr veru fjöl­skyld­unn­ar í borg­inni eft­ir því sem tím­inn líður. „Við reynum að fara af og til út en höfum ekki fengið nein málalok. Málið er opið en þeir eru ekki „aktívt“ að vinna það,“ segir Davíð Karl.

„Djöfullegt að vita ekki neitt“

Aðspurður hvort það komi til greina af hálfu lögreglunnar að hætta rannsókn segir Davíð Karl að hann haldi ekki að svo sé. „Þeir þyrftu þá að tilkynna það fyrst en það var ekki að heyra á þeim. En þeir eru kannski ekki með sama kraft í málinu og var.“

Óvissan sem fylgir hvarfinu hefur verið fjölskyldunni afar þungbær að sögn Davíðs Karls. „Almennt hefur þetta alveg gengið en þetta er búið að vera mjög erfitt, það er persónubundið hvernig fólk tekst á við sorgina og þennan harmleik. En það er djöfullegt að vita ekki neitt.“

Davíð Karl segir fjölskylduna reyna að halda áfram þó það reynist erfitt. „Þetta er bara spurning um að reyna að vera ekki með þetta í undirmeðvitundinni allan daginn og reyna einhvern veginn að halda áfram. En auðvitað er þetta alltaf til staðar.“

mbl.is