„Spennutreyjan skorin af“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, telur breytingu á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til …
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, telur breytingu á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til marks um ólíkar áherslur ríkisstjórnarflokkanna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar segir að ljóst sé af endurskoðaðri fjármálastefnu að ólíkir flokkar séu í ríkisstjórn. „Annars vegar er það vinstri flokkur sem í rauninni hefði undir venjulegum kringumstæðum talið rétt að afla tekna og hins vegar hægri flokkur sem hefur talað um það opinskátt að leiðin út úr svona aðstæðum sé að skera niður,“ segir hann.

„Niðurstaðan verður sú að þeir geta ekki komið sér saman,“ segir Logi í samtali við mbl.is.

Þessi ráðstöfun sé ástæða þess að nú þurfi að breyta ríkisfjármálaáætluninni, sem átti annars að gilda frá 2018-2022. Í gær lagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fram endurskoðaða fjármálastefnu. Þar er gert ráð fyrir um 35 milljörðum lægri afkomu hins opinbera en áætlað var og er það sagt gert til að mæta breyttum efnahagshorfum, svo sem vegna falls WOW air og loðnubrests.

Fjármálaráðherra sagði í viðtali við RÚV að undanfarið vaxtaskeið, þ.e. síðustu tvö ár, hafi verið nýtt til að skila „mjög góðum afgangi á fjárlögum og til að greiða upp skuldir á sama tíma.“ Nú sé stjórnin tilbúin að „gefa eftir fyrri áform um góða afkomu ríkissjóðs“. Því sé lagt til að ríkissjóður sé rekinn í jafnvægi á næstu tveimur árum.

Í spennitreyju í eigin stefnu

„Þetta er eins og að lenda undir á sjötugustu mínútu í knattspyrnuleik og ákveða þá einhliða að breyta reglunum þannig að leikurinn fari fólki að skapi,“ segir Logi um ákvörðunina. „Með þessu breyta þau stefnunni á þann veg að þau geti þurrkað út afganginn sem er áskilinn í stefnunni.“

„Við höfum gagnrýnt þessa stefnu og þessa útgjaldareglu. Það hefur fjármálaráð líka gert og sagt að ríkisstjórnin væri að komast í spennitreyju eigin stefnu. Þetta er augljósasta staðfestingin á því,“ segir Logi.

Logi Einarsson formaður Samfylkingar segir að í staðinn fyrir þessar …
Logi Einarsson formaður Samfylkingar segir að í staðinn fyrir þessar aðgerðir hefði mátt sleppa því að lækka banka- eða fiskiskatt. Það var í gærkvöld á meðan eldhúsdagsumræður stóðu yfir sem fjármálaráðuneytið tilkynnti að breyting yrði gerð á fjármálaáætluninni. mbl.is/​Hari

„Nú eru tekin upp skærin og spennutreyjan er skorin af,“ segir hann.

Hefði mátt bregðast við með öðrum leiðum

Áföll hafa dunið yfir hagkerfið og talað er um að breytingin á fjármálastefnunni sé leið til að mæta þeim. Logi segir að það sé eðlilegt, en ekki að það sé gert með þessum hætti. „Út af fyrir sig vil ég gera allt sem hægt er til þess að verja velferð í landinu,“ segir hann.

„Við höfum hins vegar bent á að nægar aðrar leiðir eru til í þessu málum,“ segir Logi.

„Til dæmis höfum við bent á að það væri á þessum tímapunkti að lækka bankaskatt um 7 milljarða og veiðigjöld um 4,3 milljarða. Það er hægt að ná þessu svigrúmi öðruvísi og um það hafa þessir flokkar ekki náð samkomulagi um.“ Því hafi flokkarnir „tekið úr sambandi áskilnaðinn um tiltekinn afgang“.

„Þetta er annars vegar almenn umræða um með hvaða hætti á að bregðast við því þegar svona á sér stað,“ segir Logi og vísar til áfallanna í efnahagslífinu undanfarið. „En hins vegar um það hvernig menn fara með reglur sem þeir setja sér sjálfir, því gleymum því ekki að þetta er fyrsta mál hverrar ríkisstjórnar, að setja sér þessa stefnu. Og hún lafði í tvö ár hjá þessari,“ segir Logi loks.

„Ætla menn að breyta stefnunni bara alltaf þegar verða stórir steinar í vegi fólks?“ spyr hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert