Gallhörð en miðalaus í Madríd

Katrín Magnúsdóttir ásamt sambýlismanni sínum Steinari Jónssyni, að sjálfsögðu á …
Katrín Magnúsdóttir ásamt sambýlismanni sínum Steinari Jónssyni, að sjálfsögðu á Anfield Road, heimavelli Liverpool. Þau eru stödd í Madríd vegna leiks Liverpool og Tottenham. Ljósmynd/Aðsend

Katrín Magnúsdóttir, einn fjölmargra aðdáenda enska knattspyrnuliðsins Liverpool á Íslandi, er komin til Madrídar þar sem hennar menn spila við Tottenham í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu annað kvöld.

Hún er þó ekki stödd í spænsku borginni til að fara á Wanda Metropolitano-völlinn og styðja Liverpool til sigurs heldur ætlar hún að upplifa stemninguna í miðborginni með fjölskyldu og vinum.

Svekkt að fá ekki miða

Eins og svo margir aðrir fékk hún ekki miða á völlinn og verður hún í hópi að minnsta kosti um 40 Íslendinga sem fóru miðalausir til Madrídar eins og hún. „Þetta eru gallharðir púlarar frá a til ö,“ segir Katrín en um sextán þúsund miðar voru í boði fyrir hvorn stuðningsmannahóp liðanna. Völlurinn tekur tæp 68 þúsund manns.

„Það er fullt af fólki að koma hingað sem hefur ekki fengið miða og er samt að koma í stemninguna. Einn vinur okkar frá Liverpool sem er búinn að eiga ársmiða í 43 ár fékk ekki einu sinni miða á völlinn, sem er mjög sorglegt,“ segir hún. „Þetta er voðalega leiðinlegt og maður sér fram á að stemningin inni á vellinum verði ekki eins og hún á að vera á svona leik.“

Það var góð stemning í miðborg Madrídar í dag.
Það var góð stemning í miðborg Madrídar í dag. AFP

Katrín kveðst hafa verið mjög svekkt þegar hún komst að því að hún fengi ekki miða. Hún heldur þó enn í vonina en fyrir þremur vikum var miðinn kominn upp í hálfa milljón króna, sem er of stór biti að kyngja, jafnvel fyrir grótharðan „púlara“ eins og hana.  

Hún segir aldrei hafa komið til greina að fara ekki til Madrídar þrátt fyrir miðaleysið. „Ekki þegar við skoruðum fjórða markið á móti Barcelona, þá kom ekkert annað til greina,“ segir hún og á við ótrúlegan sigur Liverpool á Börsungum í undanúrslitunum.

Frá Wanda Metropolitan Stadium-leikvanginum í Madríd í dag þar sem …
Frá Wanda Metropolitan Stadium-leikvanginum í Madríd í dag þar sem undirbúningur er í fullum gangi. AFP

Þétt dagskrá í miðborg Madrídar

Aðspurð segir hún dagskrá morgundagsins vera mjög þétta. Byrjað verður í miðbænum klukkan 12.30 þar sem svokallað Boss Night verður haldið með tilheyrandi söngvum og stuði. Annar slíkur viðburður verður 15.30 og verður að sjálfsögðu mætt á hann líka. Eftir það verður safnast saman í kvöldmat „til að halda áfram að berja okkur saman og fagna fram á nótt“, segir Katrín og hlakkar mikið til.

Spurð út í stemninguna í borginni segir hún að Liverpool-lög hafi verið sungin síðastliðinn sólarhring. Stemningin hafi verið gríðarleg og mun meira hafi verið af rauðum treyjum á ferli en hvítum.

Frá miðborg Madrídar í dag.
Frá miðborg Madrídar í dag. AFP

Hvernig meturðu möguleika þinna manna annað kvöld?

„Ef ég á að koma með fullkomlega hreinskilið svar þá met ég þetta 50/50. Mínir menn eru að mæta mjög hungraðir eftir tapið í fyrra [í úrslitaleiknum gegn Real Madrid]. Á móti kemur að Tottenham-menn mæta í sinn fyrsta úrslitaleik í Meistaradeildinni og hafa allt að vinna og engu að tapa. Þetta verður barátta frá upphafi til enda og það er engan veginn hægt að spá um úrslitin,“ segir „púlarinn“ gallharði Katrín Magnúsdóttir.

AFP

Hittast á Spot og Rauða ljóninu

Á höfuðborgarsvæðinu ætla aðdáendur Liverpool að safnast saman á að minnsta kosti tveimur stöðum, eða Spot í Kópavogi og á Rauða ljóninu, þar sem stórum skjám verður komið fyrir á Eiðistorgi. „Þetta verður vonandi sigurhátíð fyrir okkur púlara. KR-ingar eru varnir að fagna þarna og það er vonandi að það smiti út frá sér,“ segir Magnús Gunnlaugur Þórarinsson, einn af umsjónarmönnum vefsíðunnar Kop.is, sem mun ekki láta sig vanta á Rauða ljónið.

Jurgen Klopp (til vinstri) og Mauricio Pochettino stjórar liðanna á …
Jurgen Klopp (til vinstri) og Mauricio Pochettino stjórar liðanna á samsettri mynd. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert