Opnað fyrir umsóknir vegna Stúdentagarða

Svona mun Stúdentagarðurinn líta út við Sæmundargötu.
Svona mun Stúdentagarðurinn líta út við Sæmundargötu. Mynd/Aðsend

Opnað verður fyrir umsóknir nýrra nema við Háskóla Íslands um húsnæði á Stúdentagörðum á morgun, þar á meðal í nýjum Stúdentagarði á háskólalóðinni við Sæmundargötu sem verður tekinn í notkun í byrjun næsta árs.

Reiknað er með að mörg hundruð umsóknir berist fyrstu klukkustundirnar en alla jafna sækja um 1.000 manns um úthlutun á haustin. Nýnemar geta sótt um frá 1. júní ár hvert en eldri nemar allt árið um kring, að því er segir í tilkynningu.

Framkvæmdir eru í fullum gangi.
Framkvæmdir eru í fullum gangi. Ljósmynd/Aðsend

Framkvæmdir þar standa yfir og verður Stúdentagarðurinn sá stærsti sem byggður hefur verið, um 14.700 fermetrar á fimm hæðum með 244 leigueiningum fyrir tæplega 300 íbúa. Í húsinu verður m.a. boðið upp á nýtt íbúðaform, þ.e. 10 herbergja íbúðaklasa með sameiginlegu rými. Að auki verður stór sameiginlega aðstaða fyrir alla íbúa hússins miðsvæðis á lóðinni. Í fyrsta sinn verður boðið upp á að vinir geti deilt sameiginlegri aðstöðu.

Félagsstofnun stúdenta stefnir að áframhaldandi uppbyggingu Stúdentagarða en undanfarin ár hafa um 800 til 1.000 manns verið á biðlista að haustúthlutun lokinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert