Rýrir trúverðugleika fjármálastefnunnar

„Þessi staða er alls ekki óvænt. Við bentum á það þegar þessi stefna var gerð og við höfum gert það í okkar umsögnum síðan, að allar líkur væri á að þessi staða kæmi upp,“ segir Henný Hinz, deildarstjóri hagdeildar ASÍ, í samtali við mbl.is.

Tilefnið er tilkynning fjármálaráðherra á miðvikudag um að til stæði að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar yrði endurskoðuð. Henný segir að fyrirséð hafi verið að svo færi. Nú sé þó beðið eftir því að sjá til hvaða aðgerða verði gripið nákvæmlega til þess að mæta samdrættinum.

Henný Hinz, deildarstjóri fagdeildar ASÍ, segir að mikilvægt sé að …
Henný Hinz, deildarstjóri fagdeildar ASÍ, segir að mikilvægt sé að fyrirhugaðar breytingar á fjármálastefnu ríkisins verði ekki til þess að draga úr getu ríkissjóðs til að standa undir nauðsynlegum útgjöldum til velferðar og innviðauppbyggingar. mbl.is/Hjörtur

Henný segir að mikilvægt sé að fyrirhugaðar breytingar verði ekki til þess að draga úr getu ríkissjóðs til að standa undir nauðsynlegum  útgjöldum til velferðar og innviðauppbyggingar. „Það á að okkar mati ekki að nota útgjöld til heilbrigðis- og velferðarmála til sveiflujöfnunar í ríkisrekstrinum,“ segir hún. Í niðurskurði sé alltaf hætta á að þessir þættir séu fyrst teknir.

Slæmt fyrir trúverðugleika fjármálastefnunnar

Henný segir að breyting á stefnunni hafi verið fyrirséð. „Fjármálastefnan var einfaldlega með þeim hætti að gert var ráð fyrir samfelldum hagvexti með tilheyrandi tekjuvexti í það langan tíma að það mátti varla teljast raunhæft. Afgangur núgildandi fjármálastefnu byggði á þessum vexti og lítið mátti út af bregða til þess að þær forsendur gengju ekki eftir en áhyggjur okkar á undanförnum árum hafa m.a. snúið að því að gengið hafi verið of nærri tekjustofnunum,“ segir Henný.

Henný Hinz er deildarstjóri hagdeildar ASÍ.
Henný Hinz er deildarstjóri hagdeildar ASÍ.

Þess vegna hafi legið fyrir að þegar hægja tæki á þyrfti að fara í mótvægisaðgerðir þvert á hagsveifluna, sem sagt annaðhvort hækka skatta eða skera niður. „Það er óheppilegt að í fyrsta skipti sem reynir á þetta fyrirkomulag sem er búið að koma á í opinberum fjármálum, sem á að gefa aukinn fyrirsjáanleika og festu, að þá skuli strax þurfa að fara í að endurskoða stefnuna,“ segir Henný. Hætta er á að þetta kunni að hafa áhrif á trúverðugleika fjármálastefnunnar til framtíðar.

Kemur verst niður á velferðarþjónustu

Spurð um það hvaða þættir muni líða fyrir verri afkomu segir Henný að þegar séu áform í fyrirliggjandi áætluninni um talsvert aðhald í ríkisfjármálum. „Nú þegar er t.a.m. gert ráð fyrir lækkun á launabótum til ríkisstofnana til að standa undir launahækkunum til ríkisstarfsmanna. Verði kaupmáttarþróun hjá ríkinu umfram 0,5% á ári næstu þrjú ár, sem er mun minna en að jafnaði, munu stofnarnir þurfa að mæta því með aðhaldi. Þetta kemur verst niður á velferðarþjónustunni og heilbrigðisþjónustu, þar sem launakostnaður er hár,“ segir Henný.

ASÍ leggur að sögn Hennýjar áherslu á að breytt fjármálaáætlun endurspegli þau loforð sem stjórnvöld gáfu, meðal annars í skatta- og húsnæðismálum til að liðka fyrir lífskjarasamningnum. „Verkalýðshreyfingin mun aldrei samþykkja að hinni félagslegu framþróun sé ógnað með því að grundvallarstoðir velferðarkerfisins séu nýttar til þess að jafna sveiflur í ríkisrekstrinum,“ eins og segir í tilkynningu frá ASÍ um málið.

Henný telur æskilegt að horfa einnig til þess hvernig tekjujöfnun ríkisins er háttað. Til dæmis sé rétt að endurskoða áform um lækkun bankaskatts auk þess sem ASÍ telur æskilegt að styrkja tekjustofna ríkisins og auka jöfnunarhlutverk skattkerfisins, meðal annars með upptöku auðlegðarskatts og sanngjarnri gjaldtöku fyrir auðlindanýtingu. 

mbl.is