Sjá úrslitaleikinn á Tottenham-vellinum

Birgir Ólafsson fyrir utan nýjan og glæsilegan leikvang Tottenham fyrir …
Birgir Ólafsson fyrir utan nýjan og glæsilegan leikvang Tottenham fyrir síðasta heimaleik liðsins á nýafstöðnu tímabili. Ljósmynd/Aðsend

Nokkrir íslenskir aðdáendur enska úrvalsdeildarliðsins Tottenham og reyndar Liverpool líka ætla að fylgjast með úrslitaleik liðsins gegn Liverpool í Meistaradeild Evrópu annað kvöld á risaskjám á Tottenham Hotspur Stadium, glænýjum heimavelli liðsins í London.

Að sögn Birgis Ólafssonar, formanns Tottenham-klúbbsins á Íslandi, er nánast uppselt á viðburðinn en miðaverð var tíu pund eða tæpar 1.600 krónur.

Aðdáendur Tottenham á Puerta del Sol-torginu í Madríd í dag.
Aðdáendur Tottenham á Puerta del Sol-torginu í Madríd í dag. AFP

Dulbúinn í Tottenham-treyju

Einn þeirra sem fer á Tottenham-völlinn er Rúnar Óskarsson sem verður þar með konunni sinni og vinahjónum þeirra. Sjálfur er hann reyndar „púlari“ eða aðdáandi Liverpool en vinur hans er harður Tottenham-maður.

„Ég er búinn að kaupa Tottenham-treyju, ég var búinn að lofa honum því,“ segir Rúnar, sem verður því dulbúinn ef svo má segja á meðan á leiknum stendur.

Spurður hvort hann muni fagna ef Tottenham gerir góða hluti í leiknum gefur hann lítið fyrir það heldur ætlar fyrst og fremst ætla að sjá góðan fótbolta. Hann var búinn að panta ferð til London og ákvað að athuga hvort leikurinn yrði sýndur á leikvangi Tottenham. Þegar það var ljóst hafði hann samband við Tottenham-klúbbinn á Íslandi sem útvegaði fjóra miða.

„Þegar maður sá þetta og þeir ætluðu að opna völlinn vildi maður fá að njóta þess og sjá hvernig þeir fagna ef svo ólíklega vildi til að þeir myndu vinna.“

Rúnar spáir sínum mönnum í Liverpool 2:0 sigri og þarf því að hafa sig allan við til að sýna engin svipbrigði ef sú spá mun rætast.

Þessi fótboltaáhugamaður óskar eftir miðum á völlinn annað kvöld.
Þessi fótboltaáhugamaður óskar eftir miðum á völlinn annað kvöld. AFP

Síminn stoppaði ekki

Þegar mbl.is ræddi við Birgi hafði hann ekki upplýsingar um neinn íslenskan aðdáanda Tottenham sem ætlaði á leikinn í Madríd á Spáni, enda fékk hvort lið um sig aðeins úthlutað um 16 þúsund miðum fyrir sína stuðningsmenn. „Það voru ansi margir sem vildu fara til Madrídar en fengu ekki miða. Eftir að Tottenham tryggði sér sæti í úrslitaleiknum stoppaði ekki síminn hjá manni. Það voru margir að spyrja um miða og gríðarlegur áhugi á að fara en svo bara þetta miðavesen,“ segir hann og bætir við að hótelgistingin í borginni sé einnig mjög dýr. Nefnir hann að tvær nætur þessa helgi kosti um 100 þúsund krónur.

„Spursarar“ ætla að hittast á Ölveri í Reykjavík á morgun og horfa á leikinn saman, auk þess sem þeir munu hittast í smærri hópum víða um land. Um 400 manns eru í íslenska Tottenham-klúbbnum en síðustu fimm ár hafa í kringum 700 manns verið viðloðandi klúbbinn.

Aðdáendur Tottenham í hörkustuði á Puerta del Sol-torginu í Madríd …
Aðdáendur Tottenham í hörkustuði á Puerta del Sol-torginu í Madríd í dag. AFP

Hvernig meturðu möguleika þinna manna annað kvöld?

„Þetta er 50/50 leikur. Þetta eru 90 mínútur og allt getur gerst. Við erum fyrirfram ekki taldir eins sigurstranglegir í þessum leik, sem er í sjálfu sér ekkert verra. Það hvernig liðunum hefur gengið á tímabilinu og hvernig deildin endaði hefur ekkert að segja í einum svona úrslitaleik,“ segir Birgir.

Mohamed Salah og Harry Kane framherjar Liverpool og Tottenham á …
Mohamed Salah og Harry Kane framherjar Liverpool og Tottenham á samsettri mynd. AFP

Lítið um bikara

Síðasti titill Tottenham leit dagsins ljós fyrir rúmum áratug þegar liðið vann enska deildabikarinn. „Það hefur ekki verið alltof mikið um bikara, þannig að það er kominn tími á einn góðan. Fólk á mínum aldri, við byrjuðum ekki að halda með Tottenham af því að við vorum „glory hunters“. Það var ekki mikið af bikurum að detta í hús þá,“ segir hann og vonast eftir góðum úrslitum annað kvöld.

Hreppir Tottenham sinn fyrsta titil í rúman áratug annað kvöld?
Hreppir Tottenham sinn fyrsta titil í rúman áratug annað kvöld? AFP
Wanda Metropolitan Stadium-leikvangurinn þar sem leikurinn fer fram.
Wanda Metropolitan Stadium-leikvangurinn þar sem leikurinn fer fram. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert